Íslenski boltinn

Meira en ára­tugur síðan KR byrjaði mótið á tveimur sigur­leikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
KR-ingar fagna fyrra marki Atla Sigurjónssonar í 4-3 sigrinum á Fylki í fyrstu umferðinni.
KR-ingar fagna fyrra marki Atla Sigurjónssonar í 4-3 sigrinum á Fylki í fyrstu umferðinni. Vísir/Anton Brink

Gregg Ryder getur í kvöld tekist það sem engum þjálfara hjá KR hefur tekist undanfarin ellefu ár.

KR vann 4-3 sigur á Fylki í fyrstu umferð Bestu deildar karla eftir að hafa komist í 4-1 í leiknum.

Í kvöld heimsækir liðið Stjörnuna í Garðabæinn en Stjörnumenn eru stigalausir eftir tap á móti Íslandsmeisturum Víkings í fyrstu umferðinni.

KR á möguleika á því að vera með fullt hús, sex stig, eftir tvo fyrstu leiki sína. Það hefur ekki gerst síðan sumarið 2013 þegar KR-liðið vann fjóra fyrstu leiki sína.

Þá var KR-liðið undir stjórn Rúnars Kristinssonar og liðið fagnaði einnig Íslandsmeistaratitlinum um haustið. Þegar Rúnar gerði KR síðast að Íslandsmeisturum sumarið 2019 þá náði liðið í fjögur stig í fyrstu tveimur umferðunum.

KR-ingar náðu einnig fjórum stigum í fyrstu tveimur leikjunum í fyrra sem var þá fyrsta tímabilið í fjögur ár þar sem liðið fór taplaust í gegnum fyrstu tvær umferðirnar.

Leikur Stjörnunnar og KR hefst klukkan 19.15 og verður hann sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun hefst klukkan 19.00.

  • Sigurleikir og stig KR í fyrstu tveimur umferðum:
  • 2023: 1 sigur, 4 stig (Markatala:3-1)
  • 2022: 1 sigur, 3 stig (4-2)
  • 2021: 1 sigur, 3 stig (3-3)
  • 2020: 1 sigur, 3 stig (1-3)
  • 2019: 1 sigur, 4 stig (4-1)
  • 2018: 1 sigur, 3 stig (4-4)
  • 2017: 1 sigur, 3 stig (3-3)
  • 2016: 0 sigrar, 2 stig (2-2)
  • 2015: 0 sigrar, 1 stig (3-5)
  • 2014: 1 sigur, 3 stig (3-3)
  • 2013: 2 sigar, 6 stig ( 4-1)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×