Fasteignafélaginu Þórkötlu, sem annast uppkaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík, hafa borist tæplega 700 umsóknir frá íbúum sem vilja selja ríkinu eignir sínar. Margir hverjir eru orðnir óþreyjufullir enda var það gefið út að kaupin myndu hefjast í byrjun apríl. Skortur á upplýsingagjöf frá Þórkötlu hefur verið harðlega gagnrýndur og á samfélagsmiðlum má skynja vaxandi reiði og örvæntingu Grindvíkinga. Dæmi eru um að fólk hafi misst eignir sem það var komið með samþykkt kauptilboð í vegna þess að það gat ekki fjármagnað útborgun.
Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Grindavík, segir bæjarstjórnina ekki upplýsta um ferlið.
„Við erum endalaust að bíða og vona. Það er erfitt, ég veit að það er verið að reyna vinna hratt. Það er verið að skoða rafrænar samþykktir og þetta er ákveðið frumkvöðlaverkefni en Grindvíkingar bíða og bíða og þeir eru að missa kaupsamninga. En þetta húsnæðisóöryggi ýtir undir kvíða og vanlíðan og við upplifum mikla örvæntingu varðandi þetta allt saman.“
Uppkaupin séu frumkvöðlaverkefni sem sé að miklu leiti byggt á persónuverndarupplýsingum og tíminn sem þau taki sé í raun ekki óeðlilegur. Þó segir Ásrún að upplýsingagjöf til íbúa mætti vera betri. Upplýsingafundur íbúa sé í bígerð og vikulegir pistlar bæjarstjóra á heimasíðu bæjarins verði endurvekir. Um 70 fjölskyldueiningar eru á bráðalista vegna húsnæðismála.
„Þetta er fólk sem er í óviðunandi húsnæði. Til dæmis eldri borgarar sem búa inn á börnum eða barnabörnum, eða eru inn á hjúkrunarheimili og þurfa kannski ekki að nýta þannig úrræði.“
Ásrún segist skilja reiði og örvæntingu íbúa vel, enda sé ástandið óboðlegt.
„Ég skil hana mjög vel. Hef bara mjög miklar áhyggjur af andlegri líðan okkar Grindvíkinga. Maður heyrir líka bara varðandi börn, það er vaxandi vanlíðan. Svo ég er bara verulega áhyggjufull.“