Upp­gjör og við­töl: KA - FH 2-3 | Hafn­firðingar sóttu þrjú stig á Akur­eyri

Árni Gísli Magnússon skrifar
Vuk Oskar Dimitrijevic var öflugur í dag.
Vuk Oskar Dimitrijevic var öflugur í dag. Vísir/Hulda Margrét

FH vann sterkan 3-2 útsigur á KA í 2. umferð Bestu deildar karla í dag. FH komst í 2-0 snemma leiks en KA hafði jafnað metin í upphafi síðari hálfleiks. Kjartan Kári Halldórsson skoraði sigurmarkið á 58. mínútu fyrir gestina og þar við sat.

Liðin fóru nokkuð varfærnislega af stað og gáfu lítil færi á sér. Þegar tæpar 20 mínútur voru liðnar af leiknum braut Rodri klaufalega á Birni Daníeli innan teigs og víti dæmt. Á punktinn steig Vuk Oksar Dimitrijevic sem skoraði af öryggi en Kristjan Jajalo í marki KA skutlaði sér alltof snemma af stað.

Litlu mátt muna að Sveinn Margeir jafnaði metin fyrir KA um leið og leikar hófust að nýju eftir klaufagang í öftustu línu FH en Sindri Kristinn bjargaði á síðustu stundu.

FH bætti við marki á 26. mínútu og var þar að verki Sigurður Bjartur Hallson eftir að Jajalo varði skot Kjartans Kára til hliðar og eftirleikurinn var auðveldur fyrir Sigurð sem þurfti ekki annað en að ýta boltanum yfir marklínuna.

Sveinn Margeir Hauksson átti skalla í slánna rúmum fimm mínútum síðar og stuttu seinna lagaði Ásgeir Sigurgeirsson stöðuna þegar hann skoraði með góðu skoti innan teigs eftir sendingu frá Elfari Árna. Staðan 2-1 í hálfleik FH í vil.

Bjarni Aðalsteinsson jafnaði leikinn snemma í síðari hálfleik þegar Sindri Kristinn missti auðveldan boltann í loftinu eftir aukaspyrnu, en þá datt hrökk boltinn til Bjarna sem var utarlega í teignum en smurði boltann laglega í samskeytin fjær.

Þarna héldu eflaust margir að KA myndi ganga á lagið á heimavelli og sækja sigur en Kjartan Kári Halldórsson var á öðru máli. Á 58. mínútu var hann með boltann langt fyrir utan teig vinstra megin og lætur vaða upp úr engu og boltinn rúllar í markhornið nær. Kristijan Jajalo átti að gera betur í marki KA en skotið var ekki fast.

Heimamenn settu allt í sölurnar í leit að jöfnunarmarki út leikinn en inn vildi boltinn ekki þrátt fyrir dauðafæri sem Viðar Örn Kjartansson fékk undir lok leiks eftir að hafa komið inn á sem varamaður.

Lokatölur 3-2 fyrir FH sem fara sælir heim í Hafnafjörðinn með stigin þrjú.

Atvik leiksins

Sigurmark leiksins sem Kjartan Kári skorar. Skotið er vel fyrir utan og er alls ekki fast en inn fór boltinn og tryggði þetta mark FH að lokum þrjú stig.

Stjörnur og skúrkar

Kjartan Kári Halldórsson og Vuk Oskar Dimitrijevic voru hættulegir fram á við og komust báðir á blað í dag ásamt Sigurði Bjarti. Það er alltaf gaman þegar þrír fremstu menn liðsins skora allir. Þá stjórnaði Björn Daníel spilinu vel inni á miðjunni ásamt því að sinna varnarvinnu vel og leiða liðið áfram.

Sveinn Margeir Hauksson og Bjarni Aðalsteinsson áttu fínan leik fyrir KA í dag og gáfu allt í verkefnið. Bjarni skoraði auðvitað fallegt mark í nokkuð þröngri stöðu.

Skúrkar leiksins eru markmenn liðanna en það vill vera þannig að mistök þeirra gera reynst dýrkeypt. Sindri Kristinn missti auðveldan bolta í loftinu sem leiddi til jöfnunarmarks KA en slapp að lokum með skrekkinn þar sem að Kristijan Jajalo í marki KA varði ekki skot Kjartans Kára sem var af löngu færi og ekkert sérstaklega fast.

Dómarinn

Vilhjálmur Alvar stóð sig ágætlega með flautuna í dag. Mikið hefur verið rætt um fjölda gulra spjalda í leikjum hingað til og urðu þau níu í heildina í dag auka tveggja eða þriggja á varamannabekk liðanna. Flest þessu spjöld áttu þó sennilega rétt á sér.

FH kallaði eftir vítaspyrnu í stöðunni 2-2 og höfðu nokkuð til síns máls en fengu ekkert fyrir sinn snúð. Vítið sem FH fær í fyrri hálfleik er hárrétt þar sem Rodri er einfaldlega klaufi að fella Björn Daníel.

Stemming og umgjörð

Það var glampandi sól á Greifavellinum í dag þó nokkuð kalt hafi verið í veðri og aðstæður því nokkuð góðar til knattspyrnuiðkunar. Hamborgarasalan er alltaf á sínum stað og er vel sótt sem endranær.

Stemmingin á vellinum var langt frá því að vera frábær en það eru þó nokkrir gallharðir stuðningsmenn KA á hverjum einsta leik með trommur og læti og létu sig ekki vanta í dag. Þó átti FH þónokkra fulltrúa í stúkunni í dag sem gátu brosað í leikslok.

„Hæstánægðir með þennan sigur”

Heimir var sáttur í leikslok.Vísir/Hulda Margrét

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, var ánægður að fara með stigin þrjú heim í Hafnarfjörðinn eftir heimsókn norður til Akureyrar þar sem FH sótti 3-2 sigur.

„Bara gríðarlega ánægður með liðið. Á köflum frábær leikur hjá liðinu á erfiðum útivelli. KA með gríðarlega öflugt lið þannig við erum hæstánægðir með þennan sigur.”

„KA liðið fékk ekki mikið af færum í leiknum en þeir refsuðu og við líkar vorum pínu klaufar. Fyrsta markið, að dekka ekki í teignum og annað markið. En við sýndum karakter og héldum áfram og það er jákvætt og fyrstu stigin í hús og svo bara förum við að byggja ofan á þetta og eins og ég sagði við þig fyrir þennan leik að þá spiluðum við að mínu mati mjög vel í seinni hálfleik á móti Breiðablik og náðum að byggja ofan á það í dag.”

Hvað er Heimir ánægðastur með í leiknum í dag?

„Bara samstaðan í liðinu. Byrjuðum leikinn vel og vorum að pressa þá vel og það var svona samstaðan í því sem við vorum að gera og svo var fyrirliðinn (Björn Daníel Sverrisson) góður að vinna í svæðinu milli varnar og miðju, þeir réðu illa við hann og bara fleiri menn sem stigu upp. Þeir voru að beita mikið löngum skiptingum og löngum boltum inn fyrir vörnina. Við náðum að eiga vel við það.”

Kjartan Kári Halldórsson, Sigurður Bjartur Hallsson og Vuk Oskar Dimitrijevic voru í fremstu vígílínu FH í dag og komust allir á blað og gat Heimir ekki annað en verið ánægðir með frammistöðu þeirra í dag.

„Við höfum verið að leggja áherslu á það að þessir menn sem þú nefndir eru allir fljótir og geta tekið menn á og þeir sýndu það í dag og frábært mark hjá Kjartani Kára og hann var ógnandi allan leikinn og framför frá síðasta leik og við verðum að byggja ofan á það.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira