Erlent

Út­koman sem allir óttuðust

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Varnarmálaráðherra Yoav Gallant á fundi hermálanefndar Ísraels.
Varnarmálaráðherra Yoav Gallant á fundi hermálanefndar Ísraels. Getty

Beint stríð milli Írans og Ísraels er niðurstaða langdreginna átaka, sem óttast var mest. Íranir hafa undirbúið hefndaraðgerðir frá því að loftárás, sem Ísraelar voru bendlaðir við, var gerð á ræðismannsskrifstofu Íran í Damaskus í Sýrlandi. 

Ljóst er að um nýjan kafla er að ræða í átökum Írana og Ísraelsmanna, sem hingað til hafa aðeins tekist á í skuggastríðum síðasta áratuginn eða svo. Spennan milli ríkjanna jókst töluvert í kjölfar árásar Hamas-liða í Ísrael 7. október síðastliðinn. Þá komu strax fram ásakanir á hendur Írönum um að hafa staðið að skipulagningu árásanna með Hamas.

Eftir að ræðismannsskrifstofan var sprengd, með þeim afleiðingum að sjö íranskir ríkisborgarar létust og fleiri særðust, var ljóst að nýr kafli væri í vændum í árásunum. 

Fullkomið loftvarnarkerfi

Búist er við því að öflugt loftvarnarkerfi Ísraela muni ná að verjast flestöllum drónaárásum Írana. Af myndböndum að dæma hafa Íranir sent hundruði Shahed dróna í átt að Ísrael. Þeir fljúgi tiltölulega hægt, eða á um 177 km/klst, og taki því um sex tíma að fljúga frá Íran til Ísraels. Loftvarnarkerfi Ísraelsmanna muni ráða nokkuð hæglega við þessa dróna og Úkraínumenn meðal annars sýnt fram á góðan árangur í vörn sinni gegn sambærilegum drónaárásum Rússa. Loftvarnarkerfi Ísraelsmanna er auk þess talið töluvert fullkomnara en Úkraínumanna.

Í viðtali við Breska ríkisútvarpið segir Justin Crump, sérfræðingur í varnarmálum hjá Sibylline, árásartaktík Írana virðast ganga út á að yfirbuga loftvarnarkerfi Ísraels með ómerkilegum drónum, til að greiða leið stærri eldflauga og auka þannig líkur á að þær hitti skotmörk.

Íranir virðist því standa í þeirri trú að leiðin framhjá loftvarnarkerfinu, járnhvelfingunni eins og það er kallað, sé mikill fjöldi dróna og hnitmiðaðar eldflaugar. Það sé hins vegar engan veginn á vísan að róa.

„Ísraelar fá hjálp Bandaríkjamanna og Breta við að skjóta eldflaugarnar niður,“ segir Crump. „Og ísraelski flugherinn er mjög hæfur. Þá er alveg ljóst að það mun reynast mjög erfitt að yfirbuga fullkomin loftvarnarkerfin.“ 

 Beðið afleiðinga fordæmalausrar árásar

Árásirnar sem Íranir standa nú í eru fordæmalausar. Um er að ræða fyrstu beinu átök þjóðanna og í fyrsta sinn gera Íranir árásir frá eigin landsvæði. 

Ísrael lýsir Íran sem stærsta stuðningsmanni hryðjuverka í heiminum á meðan Íranir kalla Ísrael „hið illa ríki Zíonista“. Leiðtogi Írans Ali Khameiei hefur forðast bein átök allt frá því að hann komst til valda árið 1989. Í kvöld gaf hann út yfirlýsingu þar sem hann sagði að Ísraelsmönnum verði refsað fyrir fyrrgreinda árás á ræðismannaskrifstofuna. 

„Að ráðast á ræðisskrifstofu okkar er það sama og að ráðast á landið okkar. Hið illa ríki lék af sér í þetta sinn. Fyrir það ber að hefna og fyrir það verður hefnt,“ sagði Ali Khamenei.


Tengdar fréttir

Óttast að Íran gæti ráðist á Ísrael á allra næstunni

Bandaríkjastjórn segir meiriháttar árás Írana á Ísrael gæti verið yfirvofandi. Spenna á milli ísraelska og íranskra stjórnvalda hefur stigmagnast eftir að íranskur herforingi var felldur í loftárás í Sýrlandi fyrir hálfum mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×