Upp­gjörið og við­tal: Fram - Víkingur 0-1 | Ís­lands­meistararnir á­fram með fullt hús

Sverrir Mar Smárason skrifar
Víkingar byrja tímabilið af krafti.
Víkingar byrja tímabilið af krafti. Vísir/Hulda Margrét

Arnar Gunnlaugsson hefur nú stýrt Víkingsliðinu í tólf leikjum í röð í deild eða bikar án þess að tapa á móti Rúnari Kristinssyni. Nú unnu Víkingarnir hans Arnars 1-0 útisigur á Fram-liðinu hans Rúnars í Bestu deild karla í knattspyrnu.

Alex Freyr Elísson hélt hann hefði komið fram yfir í fyrri hálfleik en markið dæmt af. Jóhann Ingi Jónsson dómari taldi Alex Frey hafa notað hendina til að ná valdi á boltanum þegar boltinn barst til Framarans eftir hornspyrnu.

Markið stóð ekki og staðan markalaus í hálfleik. Liðin voru langt frá því að skora í fyrri hálfleik því samanlagt xG beggja liða var 0,03.

Í hálfleik gerðu Víkingar þrjár breytingar til þess að reyna að ná betri tökum á leiknum en náðu því þó alls ekki því Fram í raun stýrði þessum leik fyrst og fremst á góðum varnarleik og hröðum sóknum.

Fram vildi fá víti á 61. mínútu þegar Magnús Þórðarson fór niður í teig Víkinga eftir baráttu við Halldór Smára en fékk ekkert. Þremur mínútum síðar skoraði Erlingur Agnarsson það sem reyndist sigurmarkið í leiknum eftir frábæran undirbúning frá Pablo Punyed. Framliðið reyndi hvað það gat að jafna leikinn. Á 70. mínútu fékk Alex Freyr dauðafæri en náði ekki að stýra boltanum á markið. Á 79. mínútu vildu Fram svo fá annað víti en þá var það Guðmundur Magnússon sem fór niður í baráttu við Halldór Smára. Jóhann Ingi dómari leiksins dæmdi heldur ekki á það. Lokatölur 0-1. Íslandsmeistararnir eru því með fullt hús stiga eftir tvær umferðir og hafa ekki enn fengið á sig mark. Fram er á sama tíma með þrjú stig.

Atvik leiksins

Hér er erfitt að velja eitt. Ég held þó að ég verði að velja markið sem var ranglega dæmt af Alex Frey á 11. mínútu. Mér finnst líklegt að Fram hefði náð að vinna þennan leik ef það hefði fengið að standa. Hvernig dómarinn fær það út að hann hafi leikið boltann með hendinni er mér ráðgáta.

Stjörnur og skúrkar

Pablo Punyed var algjörlega frábær í þessum leik. Það er í svona leikjum, þar sem liðið er ekki að spila vel, sem hans gæði og kostir skína helst í gegn. Hann skapar þetta sigurmark og var á köflum eini leikmaður Víkinga í einhverjum takti.

Magnús Þórðarson var flottur í liði Fram. Ógnaði nokkrum sinnum og tengdi vel við samherja sína.

Skúrkar kvöldsins skiptu með sér hálfleikjum. Davíð Örn Atlason átti ekki sinn besta dag og var skipt útaf í hálfleik. Var illa staðsettur í varnarleiknum og hleypti oft á bakvið sig. Halldór Smári kom svo inná fyrir hann og var lítið skárri. Hefði getað fengið dæmd á sig tvö víti og fékk gult fyrir seina tæklingu.

Dómarinn

Úff. Jóhann Ingi þarf að skoða þennan leik vel því það er á svona dögum sem maður lærir mest. Stóru ákvarðarnirnar voru einfaldlega rangar hjá honum í dag og það má alveg færa rök fyrir því að hann hafi rænt Fram stigum hérna í dag. Bæði markið sem Alex skoraði og líka að dæma ekki víti að minnsta kosti fyrir Guðmund Magg. Falleinkun frá mér.

Stemning og umgjörð

Stemningin var fín. 1400 manns á Lambhagavellinum og stuðningsmenn til fyrirmyndar. Glæsilegt mannvirki alltaf hreint og gaman að labba í gegnum VIP-ið á leið í blaðamannastúkuna. Last fyrir veitingar blaðamanna hins vegar. Biðum lengi og urðum svo að sætta okkur við kaldar pizzur. Má bæta það en við kvörtum ekki mikið við kollegar mínir. Skemmtilegt að fá heiðursgestina Guðmund Steinsson og Aðalstein Aðalsteinsson út á völl fyrir leik og falleg minningarathöfn fyrir leik fyrir fráfallinn Guðjón Jónsson heiðursmeðlim Fram.

Viðtöl

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira