Erlent

Á­tján mánaða fangelsi vegna voðaskotsins

Árni Sæberg skrifar
Gutierrez-Reed var leidd inn og út úr dómsal í járnum.
Gutierrez-Reed var leidd inn og út úr dómsal í járnum. Eddie Moore/Getty

Vopnavörðurinn Hannah Gutierrez-Reed hefur verið dæmd til átján mánaða fangelsisvistar vegna dauða kvikmyndatökustjórans Halynu Hutchins. Hutchins lést þegar skot hljóp úr byssu Alecs Baldwin við upptökur á kvikmyndinni Rust árið 2021.

Gutierrez-Reed var fundin sek um manndráp af gáleysi af kviðdómi í Nýju-Mexíkó í byrjun mars. Kviðdómur féllst á það með saksóknurum að hún hefði gerst sek um gáleysi með því að hafa hlaðið skotvopn, sem Baldwin notaði, með minnst einni byssukúlu í stað púðurskots.

Verjandi hennar sagði á sínum tíma að niðurstöðunni yrði áfrýjað en að óbreyttu ætti hún yfir höfði sér allt að átján mánaða fangelsi og allt að 5.000 dala sekt.

Refsing hennar var ákveðin í Santa Fe á sjötta tímanum. Dómarinn fullnýtti refsirammann og dæmdi Gutierrez-Reed til átján mánaða fangelsvistar. CBS greinir frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×