Erlent

Mikill eldur í Børsen í Kaup­manna­höfn

Atli Ísleifsson skrifar
Hin einkennandi spíra á toppi byggingarinnar hefur orðið eldinum að bráð.
Hin einkennandi spíra á toppi byggingarinnar hefur orðið eldinum að bráð. AP

Mikill eldur kom upp í hinni sögufrægu byggingu Børsen í Kaupmannahöfn í morgun. Helsta kennileiti byggingarinnar, spíran sem nær 56 metra hæð, hefur orðið eldinum að bráð.

Tilkynning um eldinn barst skömmu fyrir klukkan átta að staðartíma í morgun, skömmu fyrir sex að íslenskum tíma. Byggingin hýsti dönsku kauphöllina til ársins 1974, en endurbætur á byggingunni hafa staðið yfir síðustu ár.

AP

Byggingin er ein elsta bygging dönsku höfuðborgarinnar, um fjögur hundruð ára gömul, og er að finna á Slotsholmen í miðborginni, skammt frá Kristjánborgarhöll.

AP

Mikill fjöldi starfsmanna og slökkviliðsmanna hefur unnið að því að bjarga verðmætum – málverkum og fleiru – innan úr byggingunni í morgun. Enn liggur ekki fyrir hvort einhver hafi slasast eða hvað hafi orsakað brunann. 

Mikill viðbúnaður er á staðnum og hefur lögregla beint því til almennings að halda sig fjarri. Búið er að girða af Børsgade, Knippelsbro og Strandgade.

„Hræðilegar myndir frá Børsen í morgun. 400 ára danskur menningararfur í ljósum logum,“ segir menningarmálaráðherrann Jakob Engel-Schmidt á samfélagsmiðlinum X.

Svona leit Börsen út fyrir eldinn.Wikipedia Commons

Framkvæmdir við bygginguna hófust árið 1619 og kláruðust þær 1623. Þáverandi konungur Kristján fjórði, var hvatamaður byggingarinnar.

Upphaflega var byggingin notuð sem markaður en árið 1857 var hún seld og fór að gegna hlutverki kauphallar. Árið 1974 flutti Viðskiptaráð Danmerkur svo höfuðstöðvar sínar inn í bygginguna.

Síðustu ár hefur byggingin verið notuð undir stórar veislur, ráðstefnur, veislur og aðra viðburði sem ekki eru opnir almenningi.

Fjórir „drekahalar“ sem vafðir voru um hver annan mynduðu hina frægu spíru sem ætlað var að vernda bygginguna frá árásum og eldsvoðum. Þó að byggingin hafi ítrekað sloppið við skemmdir í eldsvoðum í nálægum byggingum þá hrundi spíran um klukkan átta að startíma í morgun, þegar eldurinn hafði logað í um tvo tíma.

AP
Unnið hefur verið að því að bjarga verðmætum úr byggingunni í morgun, málverkum og fleiru.EPA

EPA

EPA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×