Skoðun

Opið bréf til mat­væla­ráð­herra - dýra­níð í Borgar­byggð

Árni Stefán Árnason skrifar

Sæl Bjarkey. Ég ætla að brjóta þá hefð í ávarpi til nýs ráðherra að óska þér til hamingju með stólinn. - Ég mun hins vegar hvergi draga af þeim árnaðaróskum þá er þú hefur virkjað aðgerðir í því sem nú verður fjallað um, já ekki bara það heldur alvöru opinbera íslenska dýravernd skv. lögum um velferð dýra! Framkvæmd dýraverndar á Íslandi er nefnilega meira og minna í molum af hálfu framkvæmdavaldsins. Hún er seinvirk þegar hún virkar sem hefur þá afleiðingu að skyni gæddar lífverur þurfa að þjást fyrir almanna augum. Hjálparskyldan er skýr í 7. gr. laga um velferð dýra. Ákvæðinu eru ekki hlýtt, sem hefur leitt til borgaralegrar óhlýðni og dýrum komið til bjargar. Af því hef m.a. ég skaðlausa reynslu, er stoltur af þegar langlundargeð mitt þrýtur.

Þú lýstir þig tilbúna til að taka stól ráðherra áður en Bjarna Ben tókst að möndla saman ríkisstjórn.

Sú yfirlýsing merkir að þú teljir þig vel að í þeim málaflokkum, sem líklegir væru að féllu í skaut nýs VG ráðherra. En er það svo? Ég hef legið yfir dýravernd í rúman áratug, nánast á hverjum degi og veit að það ár sem þú átt vonandi eftir í ráðherrastól mun kalla á yfirgripsmikla þekkingu á málaflokknum, þ.e. ef þú hefur áhuga á ella verður lítils af þér að vænta í þágu dýranna á Íslandi. - Ég efa reyndar að árið muni duga þér til að setja þig inn í allar hliðar íslenskrar dýraverndar en þú hefur jú altént herskara aðstoðarmanna í mikilvægu ráðuneyti þínu.

Nú ert þú, semsagt tekin við matvælaráðuneytinu og þar með orðin æðsti valdhafi dýraverndar á Íslandi. Í því felst gríðarlega ábyrgð. Þú ert orðin talsmaður dýra á Íslandi, umboðsmaður þeirra gagnvart öllum aðgerðum sem eiga að tryggja velferð þeirra. Á minnisvarða í Alþingisgarðinum stendur ritað

,,ef dýrin mættu mæla, þá mundi verða blessað nafnið þitt"

Farðu nú fyrir eða eftir næsta þingfund og rannsakaðu þetta sjálf og kynntu þér manninn sem þetta er ritað um. Hann var einu sinni óbreyttur þingmaður eins og þú varst fyrir nokkrum dögum. Kom miklu meiru í verk heldur en nokkur annar þingmaður hingað til og eitt er víst, hann hefði sjálfur farið upp á Höfða og afstýrt því dýraníði sem nú á sér stað á þinni vakt en allir þingmenn virðast of fínir til að takast á við.

Þegar mælt var fyrir lögum um velferð dýra sagði sá VG ráðherra, sem þá sat í þínum stól: aldrei framar afsláttur af dýravernd á Íslandi.

Í dag er staðan sú að dýravernd hins opinbera er að mestu leyti með allt niður um sig, um það hefur Ríkisendurskoðandi skrifað skýrslu. Ég var reyndar áratug á undan honum með nánast sömu yfirlýsingu í meistararitgerð í lögfræði - Hin leynda þjáning búfjár á Íslandi - um réttaráhrif og framkvæmd dýraverndarlaga á Íslandi.

Nú hefur þú móttekið marga tölvupósta frá Steinunni Árnadóttur, dýraverndarsinna um meint dýraníð að Höfða í Borgarbyggð. Ég er á þeim póstlista. Þú svarar engum póstum, frekar en 62 aðrir þingmenn. Einn hefur tjáð sig. Til hvers ertu að gefa kost á tölvupóstsambandi ef þú nennir ekki að svara slíkum erindum. Ég hafna þeirri útskýringu að erindin séu svo mörg, það er fyrirsláttur, ókurteisi og lítilvirðing við þá sem láta sig níðið varða. Ég segi bara: það er naumast þið ráherrar og lægra sett stjórnvöld takið ykkur hátíðlega.

Þú stígur inn í þetta embætti vitandi um dýraníðið á Höfða, um það hefur mikilvægir miðlar fjallað í langan tíma. Hvað hefur þú gert til að útrýma því og af hverju getur þú ekki stigið fram, þó það væri bara til þess eins að róa dýraverndarsinna með mögulegum tíðindum um að ám og lömbum sé búið eða verið að bjarga.

Hverslags þöggun er í gangi í þinni brú og smitar sig niður alla Matvælastofnun.

Það hefur engin áhuga á því að vita hver er umráðamaður þessara dýra í neyð og því skipta persónuverndarsjónarmið zeró máli gagnvart upplýsingastreymi til almennings en það er algengt ella hjá hinni umdeildu lagadeild í MAST apparatinu, sem hefur fengið viðurnefnið erlendis: stærsta klíka á Íslandi - gagnslaus í dýravernd. Það er að miklu leyti barasta hreinlega rétt Bjarkey.

Nú krefst ég þess, sem launagreiðandi þinn, og þar sem engin merkileg og aðkallandi mál, að frátöldu búvörulagaklúðrinu og hvalamálinu eru á dagskrá hjá þér varðandi málaflokkinn dýravernd, að þú bregðist við.

Og eitt að lokum. Ég tel mig vera vel gjaldgengann í sæti matvælaráðherra með mína menntun og all hokinn af lífsreynslu í dýravernd í áratugi. Sæti ég í þínu sæti væri ég löngu búinn að beina því til setts yfirdýralæknis, Þorvaldar H. Þórðarsona, með 2ja mínútna símtali, að Höfðaníðinu yrði útrýmt samdægurs og að hann fengi þau fyrirmæli að ær og lömb þeirra fengju að njóta réttarstöðu sinnar skv. lögum um velferð dýra. Það er lágmarkskrafa, sem ég geri nú til þín. Það eru auk þess lágmarksreglur skv. lögum um velferð dýra.

Það er akkúrat ekkert þessu til fyrirstöðu að lögum. Það sem virðist þessu til fyrirstöðu er að stjórnvöld virðast hreinlega vera löt og áhugalaus.

Góðar stundir.

Höfundur er dýraverndalögfræðingur.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×