Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli þann 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff 19. nóvember. Með Íslendingum og Walesverjum í riðli eru Svartfellingar og Tyrkir.
Í tilkynningu frá Play segir að áætlunin til Cardiff muni ná yfir sex vikna tímabil, eða á milli leikja Íslands og Wales. Fyrsta flugið verði 10. október og það síðasta 20. nóvember.
„Áætlun í fyrstu og síðustu vikunni verður sniðin eftir leikjum Íslands og Wales en á milli þess verður flogið á mánudögum og föstudögum.
Cardiff er höfuðborg Wales og því iðandi af mannlífi. Þar er hægt að gera sér glaðan dag í miðborginni og mun fjöldi verslana einnig vekja athygli margra. Þá er Cardiff-kastali mikið aðdráttarafl fyrir gesti sem og árbakki Cardiff-flóa sem laðar marga að,“ segir í tilkynningunni.
Líf og fjör
Haft er eftir Einari Erni Ólafssyni, forstjóra Play, að það sé virkilega gaman að geta tekið þátt í því að fljúga stuðningsmönnum á þessa mikilvægu leiki Íslands í Þjóðadeildinni.
„Liðið er uppfullt af hæfileikum eins og við sáum í undankeppninni fyrir Evrópumótið þar sem munaði litlu að liðið tryggði sér sæti í aðalkeppninni. Framtíðin er björt fyrir íslenska landsliðið og því er hér um að ræða frábært tækifæri til að fylgja liðinu eftir til Cardiff. Að sama skapi sjáum við mikinn áhuga frá íbúum Cardiff að heimsækja Ísland, þannig að það má búast við miklu lífi og fjöri í kringum þessa leiki,” segir Einar Örn.