Gamla kynslóð Atlas vélmennanna notaðist við vökvaþrýsting en sú nýja er að fullu rafknúin en í tilkynningu frá Boston Dynamics segir að nýja kynslóðin byggi á áratuga rannsóknum og tilraunum. Markmiðið sé að þróa hentugustu vélmenni heimsins með Atlas, vélhundinum Spot og vélarminum Stretch.
Þar segir einnig að fyrir áratug hafi BD verið eitt af fáum fyrirtækjum heimsins þar sem unnið væri hörðum höndum að því að þróa vélmenni en það hefði breyst verulega. Fyrirtækjum hefði fjölgað mjög en forsvarsmenn fyrirtækisins væru þrátt fyrir það sannfærðir um getu þess til að afhenda nothæfa og skilvirka róbóta.
Nýjasta kynslóð Atlas er öflugri en sú síðasta, með betri hreyfigetu og liprara. Þó vélmennið líkist manneskju getur það hreyft sig á marga vegu, eftir því hvað hentar hverju sinni.
Vélmennið er ekki bundið við liði manna, eins og sést glögglega á nýju kynningarmyndbandi Boston Dynamics. Ef marka má ummæli við myndbandið hefur hreyfigeta vélmennisins vakið smá óhug meðal netverja.
Boston Dynamics birti einnig myndband á dögunum þar sem farið er yfir þá miklu hreyfigetu sem fyrri kynslóðir Atlas hafa sýnt í gegnum árin.