Enski boltinn

Ratcliffe hljóp mara­þon og dreif sig svo á Wembley

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Sir Jim Ratcliffe kom í mark á ágætis tíma. Hann dreif sig svo beint á Wembley.
Sir Jim Ratcliffe kom í mark á ágætis tíma. Hann dreif sig svo beint á Wembley. John Walton/PA Images via Getty Images

Sir Jim Ratcliffe, meðeigandi Manchester United, var önnum kafinn í dag. 

Hinn 71 árs gamli Ratcliffe keppti í Lundúnamaraþoninu og dreif sig svo beint á Wembley þar sem hans menn unnu afar dramatískan sigur eftir vítaspyrnukeppni gegn Coventry. 

Ratcliffe er mikill hlaupaáhugamaður og hefur hlaupið meira en 30 heil maraþon yfir ævina. Hann hljóp maraþonið í dag á 4 klukkustundum, 32 mínútum og 47 sekúndum. 

Hann kom í mark klukkan 14:33 á staðartíma. Leikurinn á Wembley hófst klukkan 16:30. Þrátt fyrir að hafa knappan tíma gaf Ratcliffe sig á tal við blaðamann BBC. 

„Á mínum aldri er þessi tími ekki alslæmur. Hlaupin eru að mörgu leyti hliðstæð fótboltanum, það þarf þrautseigju til að klára þetta. Nú verð ég að drífa mig, ég þarf að mæta á leikinn!“ sagði Ratcliffe og kvaddi svo í snatri. 

Hann reyndist sannspár um að það þyrfti þrautseigju til að klára leiki. Manchester United þurfti hana í það minnsta í dag, eftir að hafa komist þremur mörkum yfir tókst Coventry að jafna leikinn og vítaspyrnukeppni þurfti til að skilja liðin að. 


Tengdar fréttir

B-deildarliðið hársbreidd frá því að fara alla leið

B-deildarliðið Coventry City var hársbreidd frá því að fella risann Manchester United í undanúrslitum FA bikarsins. Venjulegum leiktíma lauk með 3-3 jafntefli og framlenging dugði ekki til að skilja liðin að. United fór áfram eftir vítaspyrnukeppni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×