Erlent

Segir af sér vegna mis­taka í kringum á­rás Hamas

Kjartan Kjartansson skrifar
Ísraelskur hermaður gengur fram hjá pallbíl sem vígamenn Hamas notuðu í árás sinni í Sderot 7. október. Hamas-liðar myrtu á annað þúsund manns og tóku um 250 manns í gíslingu.
Ísraelskur hermaður gengur fram hjá pallbíl sem vígamenn Hamas notuðu í árás sinni í Sderot 7. október. Hamas-liðar myrtu á annað þúsund manns og tóku um 250 manns í gíslingu. AP/Ohad Zwigenberg

Yfirmaður ísraelsku herleyniþjónustunnar sagði af sér í dag. Hann er fyrsti hátt setti embættismaðurinn sem lætur af starfi vegna afglapa leyniþjónustunnar sem gerðu vígamönnum Hamas kleift að ráðast á Ísrael 7. október.

Árásinni í október hefur verið lýst sem versta leyniþjónustubresti í sögu Ísrealsríkis. Hamas-liðum tókst að  sprengja sér leið í gegnum landamæravarnir Ísraela og ganga berserksgang óáreittum í íbúðabyggðum tímunum saman án þess að ísraelskar öryggissveitir fengju rönd við reist. 

Um 1.200 manns féllu í árásinni, flestir þeirra óbreyttir borgarar, sem hratt af stað blóðugu stríði Ísraela á Gasa sem hefur kostað tugi þúsunda Palestínumanna lífið.

„Leyniþjónustuskrifstofan sem ég stýri stóð sig ekki í því starfi sem okkur var treyst fyrir. Ég ber þennan svarta dag með mér æ síðan, dag eftir dag, nótt eftir nótt. Ég ber sársaukan með mér að eilífu,“ sagði í afsagnarbréfi Aharaon Haliva, undirhershöfðingja, að sögn AP-fréttastofunnar.

Fastlega hafði verið búist við því að Haliva og fleiri yfirmenn hers og leyniþjónustu segðu af sér eftir árásina 7. október en hernaðurinn á Gasa og átök við líbönsku Hezbolla-sveitirnar flæktu stöðuna.

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra, hefur ekki gengist við neinni ábyrgð á þeim veikleikum sem gerðu árás Hamas mögulega.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×