Síðustu tólf mánuði hafa átta einstaklingar verið myrtir á Íslandi. Nú síðast tveir um helgina. Annars vegar litáískur maður í sumarhúsabyggð á Suðurlandi og svo kona í fjölbýlishúsi á Akureyri.
Helgi segir að ef litið sé á tölfræðina síðustu tíu árin séum við með að meðaltali þrjú til fjögur manndrápsmál á ári sem sé ekki mikið miðað við afbrotatíðni hér á landi. Helgi ræddi málið í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
„Það er einhver aukning en hún er í sjálfu sér í takt við mannfjöldaaukningu hér á landi,“ segir Helgi og að því sé ekki hægt að segja að fjölgun manndrápsmála sé ekki óeðlilega mikið.
Auk þess séu engar eðlisbreytingar í manndrápsmálum. Þau eigi sér stað á milli hópa eða einstaklinga sem tengjast. Vinir, nákomnir og það sé oftast ágreiningur. Sjaldan séu manndrápin skipulögð og yfirleitt takist vel að rannsaka málin.
„Þetta eru karlar að drepa karla, þetta eru karlar að drepa konur sem þeir eru í nánu sambandi við. Þessi mál upplýsast yfirleitt mjög fljótt. Þetta eru yfirleitt harmleikir og tengjast oft vímuefnum,“ segir Helgi og að þetta hafi ekki breyst síðustu áratugi.
Rauðagerðismálið undantekning
Það séu þó undantekningar og skýrasta undantekningin sé Rauðagerðismálið. Það sé annars konar manndrápsmál en hafi komið upp hér á landi „Það var skipulögð aftaka, mafíumorð, að kvöldi til fyrir utan heimili viðkomandi.“
Helgi segir að miðað við mannfjöldafjölgun á Íslandi séu manndrápsmál enn tiltölulega fá. En hvert þeirra snerti okkur.
„Við erum það fá. Þegar við fáum tvö manndráp eins og við fengum núna á örfáum dögum er ekkert skrítið að okkur bregði,“ segir Helgi og að það komi ofan í óvenjulegt þjófnaðarmál í Hamraborginni. Þar var tugum milljóna stolið úr bíl frá Öryggismiðstöðinni.
Helgi segir eðlilegt að fólk hugsi með sér þegar slíkt gerist að samfélagið sé einhvern veginn að breytast. Það megi þó hafa í huga að tíðni manndrápa er lægri á Norðurlöndum en í öðrum vestrænum löndum og á meðal Norðurlandanna er Ísland með lága tíðni, eins og Noregur. Finnland tróni á toppnum með fjölda manndrápa. Svíþjóð og Danmörk eru á milli en fleiri í Svíþjóð.
Átta manndráp
Málin átta sem er vísað til í fréttinni eru þau tvö sem vísað er til að ofan, í Kiðjabergi og á Akureyri. Auk þeirra eru það manndráp barns í Kópavogi í upphafi árs, manndráp karlmanns í Drangahrauni í Hafnafirði þar sem karlmaður varð öðrum karlmanni að bana, manndráp í miðborg Reykjavíkur þar sem karlmaður lést á skemmtistaðnum LÚX í kjölfar líkamsárásar. Svo er það manndráp í Bátavogi þar sem kona myrti tæplega sextugan karlmann, manndráp á Selfossi þar sem ung kona var myrt og svo manndrápsmál í Hafnarfirði þar sem ungmenni réðust að karlmanni og myrtu hann.