Atvikið var til umræðu í uppgjörsþættinum Stúkan á Stöð 2 Sport á sunnudaginn í samhengi við hversu KR-liðið virkaði slitið í fyrri hálfleik gegn Fram líkt og raunin hafði einnig verið gegn Fylki í fyrstu umferð deildarinnar.
„Mér finnst þeir hafa verið það (slitnir),“ sagði Atli Viðar Björnsson, einn sérfræðinga Stúkunnar. „Það voru atvik, þarna í fyrri hálfleiknum sérstaklega, þar sem að liðið var mjög slitið. Mjög auðvelt fyrir Fram að finna menn í fætur þarna á miðjunni.“
Á þessum tímapunkti fyrri hálfleiksins virðist Guy Smit, markverði KR, hafa verið skipað að setjast niður og kalla á aðhlynningu svo að leikurinn yrði stöðvaður.
„Skilaboðin af bekknum virðast hafa verið „sestu niður, láttu hlúa að þér því að við þurfum að halda fund“ og þarna eru leikmenn KR kallaðir á fund á hliðarlínunni og komið á framfæri við þá einhverjum breytingum á leikskipulaginu. Í rauninni finnst mér svo allt annað að sjá KR liðið eftir þetta,“ sagði Atli Viðar.
KR-ingar gripu þarna til þess ráðs að beita svo til nýlegri brellu úr brellubók knattspyrnuheimsins. Brellu sem hefur verið beitt töluvert úti í heimi og virðist erfitt fyrir dómara leiksins að koma í veg fyrir.
„Mér sýndist Guy Smit gefa þarna merki um að hann væri meiddur á fingri en hann fór hins vegar aldrei úr markmannshanskanum til að láta kanna stöðuna á fingrinum,“ sagði Guðmundur Benediktsson, umsjónarmaður Stúkunnar. „Það var eins og hann hefði verið læknaður í gegnum hanskann.
Við erum að sjá þetta gerast víða. Markmenn eru látnir setjast niður því það er ekkert hægt að gera. Það er ekki hægt að skipa markmanninum að bíða fyrir utan völlinn eftir að hafa fengið aðhlynningu. Þó að dómarinn viti kannski að umræddur markvörður sé ekki meiddur, þá getur hann ekki sett hann út fyrir.“
Umræðuna úr Stúkunni má sjá í heild sinni hér fyrir neðan: