Skoðun

Er menning stór­mál?

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir skrifar

Það er mikið ánægjuefni að geta á ársfundi Hörpu í dag horft yfir nýliðið starfsár og séð að enn á ný hafa metnaðarfull framtíðaráform um Hörpu á heimsmælikvarða gengið eftir. Því bera fjöldi magnaðra menningarviðburða og umfangsmiklar ráðstefnur og fundir glöggt vitni svo ekki sé minnst á fjölda opinna viðburða og augnablika sem sannarlega hafa hreyft við gestum og hrifið þá með. En við horfum líka fram á veginn, m.a. í yfirstandandi stefnuvinnu þar sem við skoðum strauma, stefnur og krafta sem kunna að hafa mótandi áhrif á starfsemi og starfsumhverfi Hörpu á komandi misserum. Hvernig þarf Harpa að þróast ef hún ætlar áfram að vera á heimsmælikvarða, hvenær ætlum við að mæta og fylgja gestum okkar og hvenær ætlum við að leiða þá og upplýsa – hvað er það sem skilgreinir Hörpu þegar horft er fram á veginn og hvaða hlutverki ætlum við raunverulega að gegna?

Svörin við þessum spurningum eru, líkt og áskoranirnar sjálfar, langt frá því að vera einföld. Viðfangsefni á sviði sjálfbærni og umhverfismála eru fyrirferðarmikil og svo er það stafræni veruleikinn, gervigreindin og tækninýjungar. Ráðstefnur og fundir eru haldnir í streymi eða í sýndarveruleikarými, stórir viðburðir með tilheyrandi miðasölu eru haldnir á vettvangi tölvuleikja í hinum stafræna veruleika. Nú getum við jafnvel farið til London og séð ABBA á sviði, jafnvel þó Benny, Björn, Agneta og Anni séu þar hvergi nærri.

Þrátt fyrir allar þessar nýjungar og tækifæri til þróunar og breytinga megum við sem stöndum að og störfum fyrir Hörpu aldrei gleyma þeirri staðreynd að kjarninn í okkar starfsemi snýst um hið sammannlega. Tæknin leysir menninguna ekki af hólmi.

Menning er stórmál - en hún er ekki bara stórmál. Menningin er líka samansafn af smámálum, litlum atriðum, blæbirgðum og litaskölum. Hún tengist hughrifum, tíðaranda og samfélagsviðmiðum á hverjum tíma, hún auðgar samfélagið. Í menningu felst að við förum frá hinu almenna, til hins einstaka, frá hinu stóra til hins smáa og frá hinu vélræna til hins mannlega. Þetta á við menningu á vinnustöðum, menningu samfélaga og þetta á ekki síst við þegar við njótum menningar og lista. Galdrarnir liggja í blæbrigðum og töfrum sem oft er erfitt að setja fingur á.

Það er mikilvægt að huga að þessu í stefnuvinnu og þróun. Við þurfum að hagnýta tæknina og nýjungar en megum aldrei gefa afslátt af gildi menningar og mennsku, gildi samverunnar, sameiginlegrar upplifunar og mikilvægi þess að við höldum áfram að koma saman hvort heldur sem er til skrafs og ráðagerða eða til að njóta menningarviðburða.

Í þessari nálgun felst sjálfbærnin í sinni tærustu mynd; við skilum af okkur til næstu kynslóðar samfélagi sem er auðugra en það var þegar við tókum við því og einmitt þar hefur björt framtíð í Hörpu sannarlega gildi fyrir íslenskt samfélag.

Höfundur er stjórnarformaður Hörpu.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×