Vestri tilkynnti um komu Johannesar Selvén á láni frá OB nú seinni partinn. Selvén er tvítugur Svíi sem leikur sem hægri kantmaður.
Hann gekk til liðs við OB frá Gautaborg fyrir tæpu ári síðan og náði að spila níu leiki og skora eitt mark fyrir danska liðið en hlutverk hans hefur minnkað eftir því sem liðið hefur á leiktíðina.
Vestri hefur verið í kantmannaleit og henni hér með lokið á lokadegi félagsskiptagluggans.
Vestri mætir Haukum í Mjólkurbikar karla á morgun en næsti leikur í deild er við HK um helgina.
Vestramenn fengu sín fyrstu stig í efstu deild með sigri á KA á Akureyri síðustu helgi. Áður hafði liðið tapað fyrir Fram og Breiðabliki í fyrstu tveimur leikjunum.