Körfubolti

LeBron og Davis köstuðu líf­línu til Lakers

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
LeBron James skoraði þrjátíu stig í sigri Los Angeles Lakers á Denver Nuggets í nótt.
LeBron James skoraði þrjátíu stig í sigri Los Angeles Lakers á Denver Nuggets í nótt. getty/Ronald Martinez

Los Angeles Lakers forðaðist sumarfrí með sigri á Denver Nuggets, 119-108, í fjórða leik liðanna í 1. umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt.

Lakers tapaði fyrstu þremur leikjunum í einvíginu og hafði tapað ellefu leikjum gegn Denver í röð fyrir leikinn í nótt. En sigurinn kom loksins og Lakers minnkaði muninn í einvíginu í 3-1.

LeBron James skoraði þrjátíu stig fyrir Lakers og Anthony Davis var með 25 stig og 23 fráköst.

Nikola Jokic átti stórleik fyrir Denver; skoraði 33 stig, tók fjórtán fráköst og gaf fjórtán stoðsendingar. Michael Porter skoraði 27 stig og tók ellefu fráköst.

Boston Celtics spilaði frábæran varnarleik þegar liðið vann Miami Heat, 84-104. Boston er 2-1 yfir í einvíginu.

Jayson Tatum og Jaylen Brown skoruðu 22 stig hvor fyrir Boston. Sá fyrrnefndi tók einnig ellefu fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Bam Adebayo skoraði tuttugu stig fyrir Miami sem lék án Jimmys Butler í nótt.

Oklahoma City Thunder er einum sigri frá því að komast í undanúrslit Vesturdeildarinnar eftir öruggan sigur á New Orleans Pelicans, 85-106. OKC er 3-0 yfir í einvíginu.

Shai Gilgeous-Alexander skoraði 24 stig fyrir Þrumuna sem hitti úr 47 prósent þriggja stiga skota sinna í leiknum. Jalen Williams og Josh Giddey skoruðu 21 stig hvor.

Brandom Ingram skoraði nítján stig fyrir New Orleans sem er enn án Zions Williamson sem er meiddur.

Orlando Magic jafnaði metin í rimmunni gegn Cleveland Cavaliers með stórsigri á heimavelli, 112-89. Staðan í einvíginu er 2-2.

Cleveland var yfir í hálfleik, 60-51, en leikur liðsins hrundi í seinni hálfleik. Cavs skoraði aðeins 29 stig í honum og tapaði 3. leikhlutanum, 37-10.

Franz Wagner skoraði 34 stig fyrir Orlando og tók þrettán fráköst. Jarrett Allen var stigahæstur hjá Cleveland með 21 stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×