Akademían er samfélag sem leiðir saman vísindamenn og sérfræðinga úr ólíkum vísinda- lista- og starfsgreinum til að takast á við áskoranir sem snerta samfélög um allan heim. Hún heiðrar jafnframt framúrskarandi vísindamenn, listamenn og leiðtoga. Akademían var sett á laggirnar árið 1780.
Sigurður Reynir er í góðum félagsskap í akademíunni, en meðal þeirra sem teknir hafa verið inn um árin eru Charles Darwin, Albert Einstein, Nelson Mandela, og Wislawa Szymborska til að taka nokkur dæmi. Benjamin Franklin, George Washington, John F. Kennedy, Martin Luther King Jr hafa einnig verið kjörnir í akademíuna.
Sigurður Reynir og rannsóknarhópur hans hafa lagt sérstaka áherslu á hringrás kolefnis á jörðinni, bindingu kolefnis í bergi og áhrif eldgosa á loft, vatn og lífverur. Eftir hann og samstarfsfólk liggja yfir 150 vísindagreinar í alþjóðlegum tímaritum auk bóka sem tengjast jarðvísindum. Þá er Sigurður þekktastur fyrir forystuhlutverk sitt innan CarbFix-verkefnisins en hann gegndi formennsku í vísindaráði þess árin 2006 - 2020. Verkefnið snýst um að binda koltvíoxíð í basaltjarðlögum og hefur árangur þess vakið heimsathygli og hlotið ýmsar viðurkenningar.
Á vefsíðu Sigurðar má finna frekari upplýsingar um störf hans og verkefni.