Þrettán frambjóðendur skiluðu inn framboðum til embættis forseta Íslands á fundi landskjörstjórnar á föstudag. Hún úrskurðaði síðan í morgun að framboð Viktors Traustasonar og Kára Vilmundarsonar Hansen hefðu ekki uppfyllt skilyrði.

„Í öðru framboðinu hafði einungis verið skilað níu meðmælendum og þegar að þeirri ástæðu er það ekki gilt. Hitt framboðið uppfyllti ekki ótvíræð skilyrði laga. Það er að segja það voru ekki heimilisföng eða lögheimili tiltekinna meðmælenda á listum. Þar voru heldur ekki á öllum stöðum kennitölur og auk þess skorti verulega á að nægilegur fjöldi meðmælenda væri,“ segir Kristín.
Þessir tveir frambjóðendur geta kært úrskurð sinn til úrskurðarnefndar kosningamála innan tuttugu klukkustunda, eða fyrir klukkan sjö í fyrramálið. Ef engin kæra berst verður hægt að hefja utankjörfundaratkvæðagreiðslu hér á landi og í sendiráðum Íslands í öðrum löndum á morgun en í síðasta lagi næst komandi fimmtudag 2. maí ef kærur berast.
Viktor Traustason segir í svari til fréttastofu að hann hafi tilkynnt úrskurðarnefnd kosningamála um að hann ætli að kæra úrskurðin. Berglind Svavarsdóttir, formaður úrskurðarnefndar kosningamála, staðfestir í samtali við fréttastofu að kæran hafi borist.
Allt stefnir þó í að frambjóðendur verði að minnsta kosti ellefu að þessu sinni og hafa þeir aldrei verið fleiri. Fyrra met var slegið þegar Guðni Th. Jóhannesson var fyrst kjörinn forseti fyrir tæpum átta árum en þá voru frambjóðendurnir níu.

Þær átta kannanir sem gerðar hafa verið af Maskínu, Gallup og Prósenti undanfarnar vikur hafa sýnt litlar hreyfingar á fylgi þriggja efstu frambjóðenda. Katrín Jakobsdóttir hefur lengst af haft naumt forskot á Baldur Þórhallsson og Jón Gnarr í könnunum Maskínu og Gallups með Jón Gnarr í þriðja sætinu. Kannanir Prósents hafa hins vegar verið á annan veg með Baldur í forystunni og Katrínu í öðru sæti.

Hinn 15. apríl fór Halla Hrund Logadóttir aftur á móti að sækja verulega á og hefur síðan þá verið á hraðri uppleið hjá öllum könnunarfyrirtækjunum. Naut þannig mesta fylgis með 26,2 prósent hjá Maskínu á föstudag og hjá Prósenti með 28,5 prósent í könnun sem birt var í dag. Í hvorugri þessara kannana var hins vegar marktækur munur á fylgi þriggja efstu; Höllu Hrund, Baldri og Katrínu.