Erlent

Hvetur Hamas til að ganga að rausnar­legum til­lögum Ísrael

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Blinken fundaði með ráðherrum ríkjanna við Persaflóa í gær. Til umræðu voru meðal annars friðarviðræður og mannúðarkrísan á Gasa.
Blinken fundaði með ráðherrum ríkjanna við Persaflóa í gær. Til umræðu voru meðal annars friðarviðræður og mannúðarkrísan á Gasa. AP/Evelyn Hockstein

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir Hamas það eina sem stendur á milli íbúa Gasa og vopnahlés. Hann hvetur samtökin til að ganga að „ótrúlega rausnarlegum“ tillögum Ísraelsmanna.

Ummælin lét Blinken falla á World Economic Forum í Sádi Arabíu í gær en ráðherrann er nú á ferðalagi um Mið-Austurlönd til að freista þess að stuðla að vopnahléi milli Ísrael og Hamas.

Hann sagði að forsvarsmenn Hamas þyrftu að bregðast skjótt við en samkomulag gæti gjörbreytt stöðu mála í átökunum. David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, var einnig á ráðstefnunni og hvatti Hamas sömuleiðis til að fallast á tillögur Ísrael.

Sendinefnd Hamas í friðarviðræðunum yfirgaf Egyptaland í gær en sagðist myndu snúa aftur innan tíðar með skrifleg svör við tillögum Ísraelsmanna. Viðræður hafa staðið yfir í Kaíró en Ísraelsmenn hafa ekki gefið til kynna hvort þeir munu funda með fulltrúum Hamas.

Þessar nýjustu tillögur eru sagðar fela í sér nokkra eftirgjöf af hálfu Ísraelsmanna, sem eru sagðir hafa fallist á lausn aðeins 33 gísla gegn lausn palestínskra fanga í ísraelskum fangelsum. Þá er talað um annan áfanga vopnahlésins, viðvarandi friðartíma.

Þá eru Ísraelsmenn sagðir hafa opnað á þann möguleika að ræða það að íbúar í norðurhluta Gasa fái að snúa heim og brotthvarf hermanna Ísrael sem hafast við á mörkunum sem skilja nú að norðurhlutann og suðurhlutann.

Sameh Shoukry, utanríkisráðherra Egyptalands, segist bjartsýnn á gang viðræðnanna; búið sé að taka tillit til krafa beggja aðila og ná fram málamiðlun. Nú sé lokaákvörðunar beðið.

Ísraelar hafa ekki ráðist inn í Rafah, enn sem komið er, en 30 eru sagðir hafa látist í loftárásum á borgina í gær. Að sögn Ísraelshers voru árásir gerðar á skotmörk þar sem hryðjuverkamenn voru taldir hafast við.

Ísraelsmenn segja forystu Hamas hafast við í Rafah auk fjögurra bardagasveita. Sveitirnar séu að nota gíslana sem teknir voru 7. október síðastliðinn sem varnarvegg og það sé ómögulegt að ná markmiðum um tortímingu Hamas og björgun gíslana án þess að gera áhlaup á borgina.

Ítarlega frétt um stöðu mála má finna á vef Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×