Í tilkynningu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að Héraðsdómur Reykjaness hafi úrskurðað manninn, sem sé um fertugt, í gæsluvarðhald til 7. maí í gær. Í tilkynningu er þjóðerni mannsins ekki tilgreint en heimildir Vísis herma að hann sé íslenskur.
Heimir Ríkarðsson, lögreglufulltrúi á lögreglustöðinni í Kópavogi, sem fer með rannsókn málsins, sagði lögregluna þurfa að halda spilunum þétt að sér, þegar Vísir náði tali af honum.
„Maðurinn var handtekinn í fyrradag í þágu rannsóknar lögreglu á innbroti og þjófnaði á fjármunum úr verðmætaflutningabifreið í Hamraborg í Kópavogi fyrir rúmum fimm vikum. Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um rannsókn málsins að svo stöddu,“ segir í tilkynningu.
Peningarnir settir aftur í spilakassa
Samkvæmt heimildum Vísis rötuðu litaðir peningaseðlar í spilakassa á vegum Happdrættis Háskóla Íslands á dögunum. Maðurinn hafi verið handtekinn eftir að upptökur úr öryggismyndavélum staðarins sem hýsir spilakassana voru skoðaðar.
„Lögregla gefur á þessari stundu engar yfirlýsingar. Við getum ekki tjáð okkur um þetta mál eins og staðan er núna,“ sagði Aðalsteinn Örn Aðalsteinsson rannsóknarlögreglumaður þegar Vísir náði tali af honum í fyrradag og bar undir hann hvort litaðir peningar væru komnir í umferð.
Fréttin hefur verið uppfærð.