Viðskipti innlent

Grind­víkingar borgi allt að þriðjungi hærri leigu en aðrir

Árni Sæberg skrifar
Á höfuðborgarsvæðinu er munurinn mestur í Hafnarfirði og Garðabæ.
Á höfuðborgarsvæðinu er munurinn mestur í Hafnarfirði og Garðabæ. Vísir/Vilhelm

Leigjendur sem þegið hafa sértækan húsnæðisstuðning vegna atburðanna í Grindavík greiða að meðaltali 13 til 22 þúsund krónum hærri leigu í hverjum mánuði en aðrir leigjendur í sambærilegu húsnæði. Á Suðurlandi er greiða Grindvíkingar að meðallagi 32 prósent hærri leigu en aðrir.

Í tilkynningu á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar segir að þetta komi fram í upplýsingum úr Leiguskrá HMS.

Þar segir að í kjölfar atburðarásar í Grindavík á síðasta ári hafi HMS úthlutað sértækan húsnæðisstuðning til Grindvíkinga til að verða sér úti um leiguhúsnæði. Styrkurinn fari eftir fjölda heimilismanna og geti numið allt að 352 þúsund krónum á mánuði.

Einn af hverjum fimm nýtir leigutorgið

Í desember síðastliðnum hafi stjórnvöld opnað leigutorg fyrir íbúa Grindavíkur sem átti að hjálpa þeim að finna tímabundið leiguhúsnæði. Frá opnun hafi rúmlega 200 leigusamningar verið gerðir í gegnum leigutorgið, en það samsvari einungis um 22 prósentum af heildarfjölda leigusamninga til Grindvíkinga.

Um 880 heimili hafi fengið húsnæðisstyrkinn frá nóvember á síðasta ári, en þar af séu um 520 þeirra í leiguíbúðum á höfuðborgarsvæðinu. Þar að auki séu um 270 heimili í leiguíbúðum á Suðurnesjum og 90 heimili í leiguíbúðum annars staðar á landinu.

Þriðjungi hærra á Suðurlandi

Í tilkynningu HMS segir að á ákveðnum svæðum sé leiguverð að meðaltali tuttugu prósent hærra en á almennum leigumarkaði. Mestur sé munurinn á Suðurlandi, þar sem Grindvíkingar borgi að meðaltali 32 prósent hærri leigu, og í Hafnarfirði og Garðabæ, þar sem munurinn nemi 28 prósentum.

Um 880 heimili hafa fengið húsnæðisstyrkinn frá nóvember á síðasta ári, en þar af eru um 520 þeirra í leiguíbúðum á höfuðborgarsvæðinu. Þar að auki eru um 270 heimili í leiguíbúðum á Suðurnesjum og 90 heimili í leiguíbúðum annars staðar á landinu.

Líka hærri leiga miðað við stærð

Þá sýni leiguskráin að Grindvíkingar greiða hærri leigu í öllum stærðarflokkum húsnæðis, en munurinn á milli Grindvíkinga og annarra leigjenda í Leiguskrá sé að meðaltali sjö til tólf prósent. Því greiði Grindvíkingar að meðaltali hærri leigu en aðrir leigjendur fyrir sambærilegar íbúðir.

Munurinn í greiddri leigu sé nokkuð jafn á milli stærðarflokka, en hann nemi að meðaltali 13 til 22 þúsund krónum. Hann sé mestur hjá tveggja herbergja íbúðum, en minnstur hjá fjögurra herbergja íbúðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×