Upp­gjör og við­töl: Fram - Fylkir 2-1 | Heima­menn upp í þriðja sætið

Hinrik Wöhler skrifar
Guðmundur Magnússon brenndi af vítaspyrnu en bætti upp fyrir það með marki sem reyndist sigurmarkið.
Guðmundur Magnússon brenndi af vítaspyrnu en bætti upp fyrir það með marki sem reyndist sigurmarkið. vísir/anton brink

Fram tók á móti Fylki í Úlfarsárdal og sigruðu heimamenn 2-1 þrátt fyrir að brenna af vítaspyrnu. Fram hefur farið vel af stað í Bestu deild karla en liðið er komið með 10 stig þegar 5 umferðir eru búnar af Íslandsmótinu.

Heimamenn fóru betur af stað og áttu nokkrar ágætar skyndisóknir í upphafi leiks. Þeir náðu þó ekki að reka smiðshöggið á sóknirnar.

Leikurinn fór rólega af stað en eftir hálftíma opnuðust allar flóðgáttir. Halldór Jón Sigurður Þórðarson kom gestunum á bragðið á 30. mínútu þegar hann átti skot inn í vítateig Fram sem fór í Adam Örn Arnarson og þaðan í netið. Boltinn breytti um stefnu og Ólafur Íshólm Ólafsson í marki Fram réð ekki við skotið.

Framarar voru staðráðnir að svara marki Fylkismanna og tóku yfir leikinn. Fram fékk vítaspyrnu skömmu síðar þegar Ásgeir Eyþórsson var of seinn í tæklingu og braut á Tiago Fernandes. Guðmundur Magnússon fór á vítapunktinn en Ólafur Kristófer Helgason gerði sér lítið fyrir og varði spyrnu Guðmundar.

Á 36. mínútu náðu heimamenn að jafna en það var Haraldur Einar Ásgrímsson sem komst einn á móti Ólafi Kristófer í vítateignum og kláraði færið laglega með að vippa yfir markvörðinn.

Heimamenn voru alls ekki hættir en tveimur mínútum síðar náði Guðmundur Magnússon að svara fyrir vítaklúðrið skömmu áður. Hann fékk hnitmiðaða sendingu frá Tiago Fernandes og skallaði af stuttu færi milli fóta Ólafs í marki Fylkis. Frábær viðsnúningur hjá Fram og heimamenn leiddu í hálfleik 2-1.

Síðari hálfleikur var mun rólegri og var lítið um opin færi. Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, ýtti liðinu ofar undir lok leiks en lærisveinar hans náðu þó ekki að finna jöfnunarmarkið.

Arnór Breki Ásþórsson átti hnitmiðað skot fyrir utan vítateig undir lok leiks en Ólafur Íshólm Ólafsson, markvörður Fram, varði skot hans meistaralega og tryggði stigin þrjú fyrir Fram.

Framarar halda áfram að safna stigum í Bestu deildina og lyfta sér upp í þriðja sæti deildarinnar með sigrinum í kvöld. Á meðan er Fylkir aðeins með eitt stig og vermir botnsæti deildarinnar.

Atvik leiksins

Viðsnúningur Fram á örfáum mínútum í fyrri hálfleik breytti leiknum. Á fimm mínútna kafla var liðið búið að skora tvö mörk ásamt því að brenna af vítaspyrnu.

Stjörnur og skúrkar

Tiago Fernandes og Fred Saraiva voru virkilega beittir á miðsvæðinu fyrir Fram. Tiago fiskaði vítaspyrnuna sem Guðmundur Magnússon náði ekki að nýta og en þeir voru aftur að verki í síðari mark Fram. Tiago með hnitmiðaða stoðsendingu inn á markteiginn sem Guðmundur kláraði.

Fred reyndist Fylkismönnum erfiður viðureignar og átti frábæra stoðsendingu á Harald Einar í fyrsta markinu. Haraldur Einar Ásgrímsson var einnig mjög sprækur í vængbakverðinum.

Ásgeir Eyþórsson, miðvörður Fylkis, braut klaufalega af sér í fyrri hálfleik inn í vítateig og vítaspyrna var dæmd. Hann var heppinn að Ólafur Kristófer Helgason varði vel úr vítaspyrnunni.

Dómarar

Ívar Orri Kristjánsson var með flautuna í leiknum í kvöld og dæmdi réttilega vítaspyrnu í fyrri hálfleik þegar Ásgeir Eyþórsson fór harkalega aftan í Tiago Fernandes. Annars hélt hann ágætlega utan um leikinn og getur Ívar verið sáttur með verk dagsins.

Stemning og umgjörð

Framarar opnuðu húsið tæplega tveimur klukkustundum fyrir leik. Kveikt var á grillinu og trúbadorar léku listir sínar fyrir stuðningsmenn áður en leikurinn hófst, mögnuð tvenna. Það er greinilegt að það reyndist heimamönnum vel og var mikið líf meðal stuðningsmanna Fram.

Þó að Árbærinn sé skammt frá Úlfarsárdalnum voru ekki margir stuðningsmenn Fylkis mættir í fimmtugsafmæli Rúnars Páls Sigmundssonar, þjálfara Fylkis. Það verður líklegast ekki mikið um veisluhöld hjá þjálfaranum enda skrapar liðið botn deildarinnar með aðeins eitt stig.

„Ætla að fara og gefa honum rauðvínsflösku“

Rúnar Kristinsson (til hægri).vísir/anton brink

Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, var ekki hæstánægður með frammistöðu liðsins í kvöld en var að vonum sáttur með stigin þrjú.

„Frábær þrjú stig en ekki góður leikur af okkar hálfu. Eftir að Fylkir kemst yfir þá fórum við í betri gír og skorum tvö góð mörk og klúðrum vítaspyrnu. Spiluðum eins og við vildum spila, á smá tempói og fljótir upp völlinn. Vorum of hægir til að byrja með og Fylkismenn voru vel undirbúnir og góðir,“ sagði Rúnar eftir leikinn í Úlfarsárdal.

Fylkir pressaði á Fram undir lok leiks en vörn Fram stóðst prófið og var lukkan með Fram í liði samkvæmt Rúnari.

„Við ætluðum að vinna seinni hálfleikinn og ætluðum að bæta við en Fylkismenn þrýstu okkur til baka og við fórum í skotgrafir í restina. Sigldum þessu heim en smá heppni sem fylgdi því.“

Fram hefur verið spútniklið tímabilsins hingað til en það voru ekki margir sem spáðu Fram meðal efstu liða. Liðið situr í þriðja sæti eftir leiki kvöldsins í Bestu deildinni.

„Fimmti leikur núna og ég var búinn að gæla við sjö stig eftir fyrstu fjóra. Okkur tókst það en ég var ekki búinn að hugsa lengra en það. Við erum komnir í fína stöðu miðað við úrslit annarra leikja og hvernig staðan er í deildinni. Annað hvort að vinna í dag og fara í efri hlutann eftir þessa fyrstu fimm leiki og vera þá frekar að horfa upp fyrir okkur.“

„Við erum búnir að búa okkur til smá ‚platform‘ til að byggja aðeins ofan á og þora aðeins að dreyma að þetta er hægt. Við erum allir búnir að láta okkur dreyma fyrir mót að vera nálægt topp sex og nú erum við þar og við viljum halda því. Mótið er rétt farið af stað ‚so far, so good‘ ef ég fæ að sletta þó ég þoli það ekki,“ sagði Rúnar um byrjun liðsins á mótinu.

Hann gat ekki gefið Rúnari Páli Sigmundssyni, þjálfara Fylkis, þrjú stig en ætlar þó að bæta upp fyrir það og gefa honum annars konar afmælisgjöf.

„Við vorum ekkert sérstakir og Fylkismenn voru góðir. Fylkismenn eru búnir að vera inn í öllum leikjum og eiga að vera hærra á töflunni finnst mér. Þeir eru með flottan þjálfara sem á fimmtugsafmæli í dag og ég vil óska honum til hamingju með það. Því miður, ég gat ekki gefið honum þrjú stig en ég ætla að fara gefa honum rauðvínsflösku,“ sagði hinn gjafmildi þjálfari Fram.


Tengdar fréttir

„Ó­líkir okkur að mörgu leyti“

Fram sigraði Fylki með tveimur mörkum gegn einu í fimmtu umferð Bestu deildar karla í kvöld. Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, fagnaði fimmtugsafmæli sínu í Úlfarsárdal í kvöld en þurfti að sætta sig við tap á þessum tímamótum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira