Enski boltinn

Newcastle fór illa með Jóa Berg og fé­laga á Turf Moor

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexander Isak fagnar marki sínu fyrir Newcastle United en hann hafði áður klúðrað vítaspyrnu.
Alexander Isak fagnar marki sínu fyrir Newcastle United en hann hafði áður klúðrað vítaspyrnu. Getty/Stu Forster

Newcastle vann stórsigur á Burnley í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag og það á heimavelli Burnley. Nottingham Forest fór á sama tíma langleiðina með því að bjarga sér frá falli og gera stöðuna enn verri fyrir Burnley. Stoðsending frá Jóhanni Berg breytti litlu.

Aðeins kraftaverk í síðustu tveimur umferðunum getur nú bjargað Burnley frá falli úr deildinni enda nú fimm stigum frá öruggu sæti.

Newcastle vann Burnley á endanum 4-1 eftir að hafa verið 3-0 yfir í hálfleik. Newcastle hafði getað unnið stærri sigur því Alexander Isak klikkaði á vítaspyrnu í leiknum.

Isak skoraði fjórða mark Newcastle en áður höfðu Callum Wilson, Sean Longstaff og Bruno Guimaraes allir skorað á fyrstu fjörutíu mínútum leiksins.

Jóhann Berg Guðmundsson kom inn á sem varamaður á 62. mínútu þegar staðan var orðin 0-4. Hann lagði upp mark fyrir Dara O'Shea á 86. mínútu.

Með þessum sigri þá fór Newcastle upp fyrir Manchester United og upp í sjötta sætið. United er tveimur stigum á eftir en á leik inni.

Burnley hafði náð í fimm stig út úr síðustu þremur leikjum en þessi skellur var ekki góður fyrir markatöluna. Burnley situr í næstsíðasta sæti, nú fimm stigum frá öruggu sæti þegar aðeins tvær umferðir eru eftir.

Það voru nefnilega ekki aðeins þessi úrslit sem voru slæm fyrir Burnley því Nottingham Forest vann á sama tíma 3-1 útisigur á Sheffield United.

Ben Brereton Diaz kom Sheffeld United í 1-0 á 17. mínútu með marki úr vítaspyrnu en Callum Hudson-Odoi jafnaði á 27. mínútu og Ryan Yates kom Forest síðan yfir á 51. mínútu.

Hudson-Odoi innsiglaði síðan sigurinn með þriðja markinu og sínu öðru marki á 65. mínútu.

Brenford og Fulham gerðu svo markalaust jafntefli í þriðja leiknum sem hófst klukkan 14.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×