Handbolti

HSÍ lengir bann Einars: „Fram­ganga þjálfarans var mjög ógnandi og ó­drengi­leg“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Einar er á leið í tveggja leikja bann.
Einar er á leið í tveggja leikja bann. Vísir/Hulda Margrét

Handknattleikssamband Íslands hefur ákveðið að lengja leikbann Einars Jónssonar, þjálfara Fram í Olís-deild karla og kvenna, um einn leik vegna hegðunar hans í leik Fram og Hauka í úrslitakeppni Olís-deildar kvenna.

Einar Jónsson fékk að líta rauða spjaldið þegar Haukar sópuðu Fram í sumarfrí á dögunum. Spjaldið fór á loft þegar tæpar tíu mínútur lifðu leiks. Áður hafði eftirlitsdómari gefið merki um leikhlé sem Einar var ekki sáttur við.

Einar var í kjölfarið dæmdur í eins leiks banns en frekari meðferð málsins var frestað þangað til í dag, laugardag. Nú hefur aganefnd HSÍ fundað og komist að þeirri niðurstöðu að Einar verði dæmdur í samtals tveggja leikja bann.

„Ljóst er framganga þjálfarans var mjög ógnandi og ódrengileg. Þá þurfti gæslumaður að skerast í leikinn og fjarlægja þjálfarann í tvígang, bæði eftir útilokun og að leik loknum,“ segir í úrskurði aganefndar. Lesa má úrskurðinn í heild sinni hér að neðan.

Einar Jónsson þjálfari Fram hlaut útilokun með skýrslu vegna mjög ódrengilegrar hegðunar í leik Fram og Hauka í úrslitakeppni Olís deildar kvenna þann 01.05.2024. 

Með úrskurði aganefndar dags. 02.05.2024 var þjálfaranum gerð refsing, einn leikur í bann, en frekari meðferð málsins frestað til dagsins í dag. Nefndinni barst greinargerð frá Fram. 

Nefndin hefur kynnt sér myndbandsupptökur af atvikinu og einnig var kallað eftir greinargerð frá eftirlitsmanni leiksins. Ljóst er framganga þjálfarans var mjög ógnandi og ódrengileg. Þá þurfti gæslumaður að skerast í leikinn og fjarlægja þjálfarann í tvígang, bæði eftir útilokun og að leik loknum. 

Niðurstaða aganefndar er sú að ákvarða þjálfaranum 1 leiks bann til viðbótar við það sem ákveðið var á fundi nefndarinnar 02.05.2024, tvo leiki alls


Tengdar fréttir

Reiður Einar hellti sér yfir eftirlitsdómarana

Einar Jónsson, þjálfari kvennaliðs Fram, fékk að líta rauða spjaldið í þriðja leik Fram og Hauka í úrslitakeppninni. Haukur unnu leikinn og sópuðu Fram í sumarfrí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×