Viðskipti innlent

Hátt­semi dómara ekki sak­næm og Isavia fær því enga milljarða

Jón Þór Stefánsson skrifar
Málið varðaði vél WOW Air sem félagið leigði frá ALC.
Málið varðaði vél WOW Air sem félagið leigði frá ALC. Vísir/Vilhelm

Hæstiréttur hefur sýknað íslenska ríkið og bandarísku flugvélaleiguna ALC af milljarðakröfum Isavia. Þar með staðfestir Hæstiréttur dóm Landsréttar, en Héraðsdómur Reykjavíkur hafði komist að annarri niðurstöðu og taldi að dómari við Héraðsdóm Reykjaness hefði komist að rangri niðurstöðu með saknæmum hætti í deilunni.

Málið snýst um deilu Isavia og ALC um yfirráð á Airbus-þotu sem WOW Air leigði frá ALC.

Isavia kyrrseti þotuna árið 2019 vegna skulda WOW sem varð gjaldþrota þetta sama ár. ALC vildi meina að Isavia mætti ekki halda vélinni sem tryggingu vegna gjaldþrots annars félags, WOW.

Málið endaði fyrir Héraðsdómi Reykjaness sem úrskurðaði að Isavia hefði aðeins verið heimilt að kyrrsetja vélina vegna greiðslna sem tengdust umræddri vél en ekki vegna heildarskuldar WOW til Isavia. Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði að réttaráhrifin frestuðust ekki þó málinu yrði skotið til Landsréttar og Hæstaréttar.

Því greiddi ALC gjöldin sem tengdust umræddri vél og flaug henni af landi brott.

Isavia unni ekki þeirri ákvörðun og stefndi ALC og íslenska ríkinu og krafðist 2,2 milljarða króna í skaðabætur. Isavia vildi meina að dómarinn við Héraðsdóm Reykjaness hafi sýnt af sér saknæma háttsemi við úrlausn málsins. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á það og komst síðan að þeirri niðurstöðu að dómur Héraðsdóms Reykjaness hafi verið rangur.

Landsréttur sneri þeirri ákvörðun við og sýknaði ALC og íslenska ríkið. Líkt og áður segir hefur Hæstiréttur nú staðfest þann dóm

Í dómi Hæstaréttar segir að stöðvunarheimild Isavia hafi verið lögmæt en vegna þeirra gjalda sem stofnað hafði verið til vegna umræddrar vélar. Eftir að ALC greiddi þau gjöld hefði ekki verið heimild til að aftra áfram för þotunnar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×