Körfubolti

Þjálfari Luka og Kyri­e fram­lengir

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jason Kidd og Luka Dončić.
Jason Kidd og Luka Dončić. on Jenkins/Getty Images

Jason Kidd hefur skrifað undir margra ára framlengingu á samningi sínum við NBA-liðið Dallas Mavericks. Lærisveinar Kidd mæta Oklahoma City Thunder í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Vesturhluta deildarinnar á miðvikudaginn kemur.

Hinn 51 árs gamli Kidd spilaði með Dallas frá 1994 til 1996 og aftur frá 2008 til 2012. Þá spilaði hann með Phoenix Suns, New Jersey Nets og New York Knicks á ferli sínum sem spannaði frá 1994 til 2013.

Eftir að skórnir fóru upp í hillu sneri hann sér strax að þjálfun. Tímabilið 2013-14 stýrði hann Brooklyn Nets. Frá 2014 til 2018 var hann þjálfari Milwaukee Bucks og frá 2019 til 2021 var hann aðstoðarþjálfari Los Angeles Lakers.

Hann tók svo við Dallas Mavericks 2021 og er þar enn. Samningur hans átti að renna út eftir næstu leiktíð en nú hefur The Athletic greint frá því að hann hafi skrifað undir „margra ára framlengingu.“ Ekki kemur fram hversu langur samningurinn er.

Undir stjórn Kidd komst Dallas í úrslit Vesturhluta NBA-deildarinnar vorið 2022 þar sem liðið mátti þola tap gegn verðandi meisturum í Golden State Warriors. Síðasta leiktíð var hörmung frá byrjun til enda og komst Dallas ekki í úrslitakeppnina.

Það gerði liðið hins vegar í ár og er nú komið í undanúrslit eftir að leggja Los Angeles Clippers að velli í sex leikjum.

„Starf mitt er að gera þessa ungu menn betri, innan vallar sem utan. Ég tel mig hafa gert það. Í því felst vinnan mín. Þú sérð að liðið mitt fríkar ekki út þegar það tapar einum leik,“ sagði Kidd eftir æfingu Dallas á sunnudaginn var.

Tvær skærustu stjörnur Dallas eru tvær af skærustu stjörnum NBA-deildarinnar; Luka Dončić og Kyrie Irving. Þeir þurfa að standa sig á báðum endum vallarins ætli Dallas sér í gegnum OKC sem stóð uppi sem sigurvegari Vesturdeildar NBA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×