Íslenski boltinn

Vatnstjónið vísar Stólum til Akur­eyrar

Sindri Sverrisson skrifar
Hugrún Pálsdóttir og liðsfélagar hennar í Tindastóli geta ekki spilað á heimavelli sínum sem stendur. Eins og sjá má hefur völlurinn bólgnað upp og skemmst á vissum stöðum.
Hugrún Pálsdóttir og liðsfélagar hennar í Tindastóli geta ekki spilað á heimavelli sínum sem stendur. Eins og sjá má hefur völlurinn bólgnað upp og skemmst á vissum stöðum. Samsett/Vilhelm/skagafjordur.is

Óvíst er hvenær Tindastóll getur leikið heimaleiki að nýju á gervigrasvelli sínum á Sauðárkróki vegna mikilla skemmda sem urðu á vellinum í vatnsveðri í apríl.

Næsti heimaleikur Tindastóls í Bestu deild kvenna á fimmtudaginn, mikilvægur slagur við Fylki, hefur nú verið færður og fer fram á Greifavelli KA-manna á Akureyri. Áður hafði Tindastóll skipt við Breiðablik á heimaleikjum, og spilað á Kópavogsvelli í 2. umferð.

Lee Ann Maginnis, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Tindastóls, segir óvíst hve langan tíma taki að gera við völlinn en það veltur meðal annars á hve langan tíma tekur að fá, erlendis frá, efni til viðgerða.

Í frétt á vef sveitarfélagsins Skagafjarðar má sjá að völlurinn var í bylgjum eftir miklar leysingar laugardaginn 20. apríl. Tveimur dögum síðar spilaði Tindastóll sinn fyrsta leik á tímabilinu í Bestu deildinni, gegn FH, og tapaði 1-0.

Skemmdir urðu á heimavelli Skagfirðinga nú í vor og óvíst er hvenær hægt verður að spila þar að nýju.skagafjordur.is

Skemmdir á undirlagi

Samkvæmt fréttinni á vef Skagafjarðar er gervigrasvöllurinn hannaður til að drena sig sjálfur í leysingum, en það getur tekið um einn til tvo sólarhringa þegar vatnið er mikið. Vegna fyrsta heimaleiks var „freistast til að ná vatni af vellinum fyrr, sem gekk ekki eftir“.

Í ljós kom að skemmdir urðu á vellinum á um 1.500 fermetrum og þar af eru 1.000 fermetrar illa farnir. Helstu skemmdir urðu á undirlagi vallarins. Búið var að gera ráð fyrir því í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins að endurnýja gras á hluta þess svæðis sem varð fyrir skemmdum, en nú er ljóst að framkvæmdin verður meiri og kostnaðarsamari.

Tindastóll náði í sín fyrstu stig á leiktíðinni síðastliðinn föstudag með flottum 2-0 útisigri gegn Stjörnunni í Garðabæ. Liðið er því í 7. sæti Bestu deildarinnar eftir þrjár umferðir og getur komist upp fyrir Fylki með sigri í leik liðanna á fimmtudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×