Viðskipti innlent

Far­þegum fjölgaði og sæta­nýting um 85 prósent

Atli Ísleifsson skrifar
Af þeim farþegum sem flugu með Play í apríl voru 30 prósent á leið frá Íslandi, 27 prósent voru á leið til Íslands og 43 prósent voru tengifarþegar.
Af þeim farþegum sem flugu með Play í apríl voru 30 prósent á leið frá Íslandi, 27 prósent voru á leið til Íslands og 43 prósent voru tengifarþegar. Vísir/Vilhelm

Flugfélagið Play flutti rúmlega 122 þúsund farþega í apríl 2024, sem er 19 prósent meira en í apríl á síðasta ári. Sætanýtingin í apríl 2024 var 85,1 prósent, sem er aukning frá apríl í fyrra þegar sætanýting var 80,8 prósent.

Í tilkynningu frá Play segir að aukningin sé eftirtektarverð þegar litið sé til þess að aukning í framboðnum sætiskílómetrum hafi verið 16 prósent á milli ára og að páskarnir hafi verið í mars á þessu ári, en apríl í fyrra.

„Af þeim farþegum sem flugu með Play í apríl voru 30% á leið frá Íslandi, 27% voru á leið til Íslands og 43% voru tengifarþegar (VIA). Stundvísi Play var með besta móti í aprílmánuði, eða 89,4%.

Borgaráfangastaðir í Evrópu héldu áfram að mælast vel fyrir í leiðakerfi PLAY. London, Alicante, Kaupmannahöfn, París og Berlín voru með yfir 90% sætanýtingu.

Nýr áfangastaður í apríl

Play hóf miðasölu til Cardiff í Wales í aprílmánuði. Flugfélagið mun fljúga tvisvar í viku til Cardiff yfir sex vikna tímabil næstkomandi haust. Fyrsta flugið verður 10. október og síðasta flugið 20. nóvember. Það sem af er ári hefur Play kynnt fjóra nýja áfangastaði til viðbótar við Cardiff en þeir eru Madeira, Marrakesh, Vilníus og Split.

Haft er eftir Einai Erni Ólafssyni, forstjóra félagsins, að það sé ánægjulegt að sjá þennan vöxt í farþegafjölda og sætanýtingu, sem sé til marks um aukið framboð og sterkari stöðu Play á erlendum mörkuðum.

„Að ná þessum vexti samhliða 16% aukningu í framboðnum sætiskílómetrum er vel að verki staðið og sýnir að við erum á réttri leið og í góðri stöðu til að gera enn betur. Enn á ný státum við af frábærri stundvísi, 89,4%, sem er umfram markmið okkar um 85% stundvísi yfir allt árið. Við erum sem fyrr virkilega stolt af samstarfsfólki okkar sem nær að skila þessum frábæru tölum og ég er handviss um að áframhald verði á því. Við hjá Play bíðum spennt eftir sumarvertíðinni og erum staðráðin í að veita farþegum okkar frábæra þjónustu á góðu verði.“


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×