Handbolti

„Bara að fara heim og hitta mömmu“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Bjarki Már Elísson var ferskur á æfingu landsliðsins.
Bjarki Már Elísson var ferskur á æfingu landsliðsins. VÍSIR/VILHELM

„Það er alltaf gott að koma heim og hitta strákana. Við erum búnir að vera lengi saman sem lið og þekkjumst orðið mjög vel. Það er bara gaman, fjör og skemmtileg tilbreyting á tímabilinu að koma og hitta landsliðið,“ segir landsliðsmaðurinn Bjarki Már Elísson sem er í hópi Íslands sem mætir Eistlandi á morgun.

Er eitthvað sérstakt sem Bjarki Már gerir þegar hann kemst á klakann?

„Bara að fara heim og hitta mömmu og fjölskylduna. Ætli maður finni sér ekki eitthvað að borða sem fæst ekki úti.“

Klippa: Í sínu besta standi en vonbrigði með liðinu

Eistland er andstæðingur Íslands í umspili um sæti á HM. Fyrri leikurinn er á miðvikudagskvöld og sá síðari á laugardag.

„Við spiluðum við þá í síðasta undanriðli fyrir EM og unnum þá nokkuð þægilega. Þeir eru með fínt lið en við erum með sterkari hóp og þegar allt er eðlilegt eigum við bara að klára þetta verkefni. Við förum með það hugarfar inn í þetta,“ segir Bjarki Már.

Standið á Bjarka Má er gott og honum hefur gengið vel með félagi sínu í Ungverjalandi. Félagið náði hins vegar ekki einu af sínum markmiðum á dögunum.

„Bara mjög fínt, aldrei verið betra. Ég er bara ferskur og hlakka til,“ segir Bjarki og bætir við:

„Persónulega gengið mjög vel í síðustu leikjum. En aðal svekkelsið er að við duttum út úr Meistaradeildinni núna í átta liða úrslitunum. Það var stóra markmið félagsins að klára hana í fyrsta skipti í sögu félagsins. Það gekk ekki eftir. Persónulega hefur gengið vel en það telur ekki þegar liðinu gengur ekki vel. Það er bara eins og það er.“

En er þetta skyldusigur í komandi verkefni?

„Tja, auðvitað getum við ekki mætt værukærir í þetta. Við förum með það hugarfar að við séum með betra lið og vinnum þessa leiki. Ef við gerum það eigum við að fara áfram,“ segir Bjarki Már.

Viðtalið má sjá í spilaranum að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×