Ólöf Melkorka Laufeyjardóttir kennslu- og guðfræðingur var nítján ára og með nokkra vikna barn á brjósti árið 1973 þegar hún varð alvarlegu heimilisofbeldi og þurfti að láta gera að sárum sínum á spítala.
„Ég eignast stúlkuna mína en verð fyrir alvarlegu heimilisofbeldi af hálfu barnsföður míns þegar hún er fimm vikna. Svo alvarlegu að ég þurfti að fara í aðgerð. Við fórum báðar saman á Landakotsspítala og mér var sagt að hún myndi fá vera þar inni meðan ég væri að jafna mig eftir aðgerðina. Ég var sátt við það og var líka sátt við að fá eitthvað af fyrra útliti til baka. Svo fer ég í aðgerðina og vakna, það er búið að reyra brjóstin á mér og barnið er farið,“ segir Ólöf Melkorka.

Engin svör
Ólöf Melkorka segir að kalt viðmót hafi tekið við á spítalanum þegar hún spurðist fyrir um barnið.
„Það voru engin svör, ég var bara drasl. Ég var of veik til að mótmæla. Það er ekkert sem þú getur gert. Þú getur skotið þig fyrir framan fólkið, það skiptir engu máli. Það eru þau, þeir sem ráða.“
Hún fékk loks að vita að barnið hefði verið vistað á Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins. Hún hafi svo ekki fengið að hitta stúlkuna sína fyrr en eftir dvölina á spítalanum.
Man ekki barnið
„Ég hlakka mikið til að fara að hitta hana eftir að ég kom heim. En þá er þessi elskulegi gluggi þarna á vöggustofunni. Stór hvít rimlarúm. Ég man rúmið,ég man gluggann, ég man ekki eftir barninu mínu. Ég fékk ekki að snerta hana eða knúsa, ég fékk aðeins veifa henni í gegnum þennan vegg,“ segir Ólöf Melkorka sorgmædd.
Hún fékk telpuna sína aftur til sín af og til en vegna gríðarlega erfiðra heimilisaðstæðna og veikinda var barnið aftur tekið nokkrum sinnum af heimilinu og vistað á vöggustofunni.
„Það hefði verið langbest fyrir hana og vafalaust fyrir mig ef hún hefði farið strax á gott heimili,“ segir Ólöf Melkorka.
Stærsta gjöfin
Stúlkan hennar Ólafar Melkorku var svo eitt þeirra ríflega níutíu barna sem voru vistuð á Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins á árunum 1963-1973 sem fóru í fóstur eða voru ættleidd. Samkvæmt skýrslu Vöggustofunefndar voru ríflega sex hundruð börn vistuð á Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins og fóru fimmtán prósent þeirra í fóstur eða voru ættleidd.
„Að vísu fékk ég að velja foreldranna sem betur fer. Mér fannst ég þekkja þau. Þau báru af sér góðan þokka og mér fannst einhver skyldleiki þarna á milli. Það var eiginlega strax sem ég fann frá konunni þakklæti fyrir gjöfina frá mér. Ég gaf henni þá stærstu gjöf sem hægt er að óska sér,“ segir Ólöf Melkorka.
Ólöf Melkorka er meðal viðmælanda í þáttaröðinni Vistheimilin sem er sýnd er á Stöð 2 næstu sunnudaga. Þátturinn sem Melkorka kemur fram í fjallar um Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins.
Hér var fjallað um ofbeldi. Ef þig vantar aðstoð eða ráð sem þolandi, aðstandandi eða til að breyta ofbeldisfullri hegðun þinni þá er hægt er að fá nánari upplýsingar á ofbeldisgátt 112.is. Þar á meðal um þá þjónustu sem er til staðar á landsvísu. Einnig er ætíð hægt að hafa samband í síma 112.