Flugher Úkraínu segir að 39 af 55 eldflaugum hafi verið skotnar niður og sömuleiðis hafi tuttugu af 21 sjálfsprengidróna sem notaðir voru til árásanna verið skotnir niður.
Árásirnar eru sagðar hafa náð til sjö héraða Úkraínu og beindust þær að orkuverum og dreifikerfum. Flest þeirra héraða sem um ræðir eru ekki nærri víglínunni í Úkraínu, heldur í vesturhluta landsins.
Ítrekaðar árásir Rússa á orkuinnvið Úkraínu samhliða skorti Úkraínumanna á loftvarnarkerfum og flugskeytum í þau, hafa komið verulega niður á orkuframleiðslu og dreifingu.
Markmið Rússa með þessum árásum er að ná höggi á baráttuvilja Úkraínumanna, auk þess sem árásirnar koma niður á hergagnaframleiðslu í Úkraínu. Þar að auki kosta árásirnar Úkraínumenn verðmæt skotfæri fyrir loftvarnarkerfi og koma í veg fyrir að þeir geti beitt sínum bestu kerfum nær víglínunni.
Árásirnar hafa leitt til þess að yfirvöld Úkraínu hafa þurft að loka á rafmagnsdreifingu tímabundið yfir daginn í nokkrum héruðum landsins. Áhrifin verða þó líklega enn áhrifameiri í sumar og í haust og vetur, þegar orkunotkun er mun meiri.
Umfangsmiklum árásum sem þessum hefur fækkað á undanförnum vikum og hafa ráðamenn í Úkraínu áhyggjur af því að Rússar séu að safna skotfærum fyrir nýja umfangsmikla sókn í austurhluta landsins.