Vísi barst á dögunum ábending frá aðstanda sjúklings á Landspítalanum að Skúli Tómas hafi komið að ummönnun sjúklinga. Hann hóf störf á spítalanum á ný í janúar síðasta árs, á þeim forsendum að hann myndi ekki koma beint að því að sinna sjúklingum.
Skúli Tómas hafði verið sendur í leyfi í maí árið 2022 þar sem erfitt var að tryggja að hann kæmi ekki að umsjá sjúklinga á spítalanum.
Má bara starfa á Landspítala
Hann starfar á Landspítala á takmörkuðu lækningaleyfi frá Landlækni, sem bundið er við Landspítalann. Þannig getur hann hvergi annars staðar starfað sem læknir.
Þegar hann var ráðinn til Landspítalans var honum falið það verkefni að að yfirfara gögn sjúklinga til stuðnings við störf annarra lækna á A2, bráðadagdeild lyflækninga. Ekki stóð til að hann yrði í samskiptum við sjúklinga á meðan hann væri í endurmenntun og þjálfun á spítalanum.
Í aðdraganda þess að hann var sendur í leyfi árið 2022 höfðu af og til komið upp neyðartilfelli þar sem hann sinnti sjúklingum vegna manneklu og undirmönnunar.
Sama uppi á teningnum núna
Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum hefur engin breyting orðið á ráðningarsamningi Skúla Tómasar og Landspítalans. Hann starfi eftir sem áður á bráðadagdeild lyflækninga við að yfirfara gögn.
Þó hafi af og til komið upp á spítalanum, vegna manneklu og undirmönnunar, neyðartilfelli þar sem Skúli Tómas sinnir sjúklingum.
Mál Skúla Tómasar er enn á borði Héraðssaksóknara, að því er segir í svari embættisins við fyrirspurn Vísis.