Innlent

Guð­ríður Hrund skipuð skóla­meistari MK

Lovísa Arnardóttir skrifar
Guðríður Hrund Helgadóttir hefur verið starfandi skólameistari frá því í fyrra.
Guðríður Hrund Helgadóttir hefur verið starfandi skólameistari frá því í fyrra.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur skipað Guðríði Hrund Helgadóttur í embætti skólameistara Menntaskólans í Kópavogi til fimm ára frá 1. ágúst 2024. Guðríður sótti ein um embættið.

Guðríður hefur starfað við Menntaskólann í Kópavogi frá árinu 2011 og hefur verið starfandi skólameistari frá árinu 2023.

Hún hefur einnig starfað sem aðstoðarskólameistari, áfangastjóri og kennslustjóri ásamt fleiri ábyrgðarhlutverkum innan skólans. Guðríður starfaði einnig sem málstjóri og prófdómari hjá Leiðsöguskóla Íslands á árunum 2018 til 2023. Áður starfaði Guðríður meðal annars sem leiðsögumaður, kennari og framkvæmdastjóri.

Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins kemur fram að Guðríður lauk grunn- og meistaraprófi í uppeldisfræði og þýsku frá Universität Trier árið 2003 og uppeldis- og kennslufræði frá Háskóla Íslands árið 2004. Þá lauk hún M.Ed. prófi í stjórnun menntastofnana frá Háskóla Íslands árið 2023. Guðríður er einnig með próf sem leiðsögumaður frá Leiðsöguskólanum (2016) og viðbótardiplóma í menntastjórnun og matsfræði frá Háskóla Íslands (2020).



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×