Skoðun

„Hlut­drægni” Ríkis­út­varpsins og „hnignun” ís­lenskunnar

Magnús Lyngdal Magnússon skrifar

Frá því að ég man eftir mér hefur verið uppi umræða um meinta hlutdrægni Ríkisútvarpsins í aðskiljanlegum málum og ekki hvað síst þátt þess í „hnignun” íslenskunnar. Að vísu er ég ekki nógu gamall til þess að reka minni til áranna eftir að útvarpsútsendingar hófust árið 1930 og vil ég því taka miklu yngra dæmi.

Þannig háttar til að ég var fréttamaður á Ríkisútvarpinu fyrir aldarfjórðungi, þar á meðal í seinni uppreisn (Intifada) Palestínumanna. Hún hófst í september árið 2000 (og lauk 2005). Það var fyrir tíma samfélagsmiðla en ég man ekki hvað ég fékk mörg símtöl og tölvupósta frá hlustendum, þar sem ég var sakaður um að draga ýmist taum Ísraela eða Palestínumanna; skiptingin var um það vil jöfn í minningunni.

Hlustendur höfðu líka mikið samband til þess að tilkynna mér að fréttamenn Ríkisútvarpsins væru að eyðileggja íslenskt mál. Ég man til að mynda einu sinni eftir því að hafa sagt „Sovétríkin sálugu” í lesinni frétt. Um leið og fréttatímanum lauk beið dyggur hlustandi á línunni sem tilkynnti mér að Sovétríkin hefðu ekki haft sál; því væri orðaleikur minn rangur í eðli sínu. Nú, 25 árum seinna, hefur umræðan um hlutdrægni og málspjöll Ríkisútvarpsins lítið breyst.

Auðvitað hafa orðið miklar breytingar á íslenskunni, enda er málið lifandi. Ég held að upphrópanir um „hnignun” séu hins vegar óþarfar og ótímabærar. Það á enginn einkarétt á „réttu” máli, hvorki fréttamenn Ríkisútvarpsins né einstaka hlustendur. Ýmsir hafa tilhneigingu til að telja það mál sem þeir ólust upp við „rétt” og þar af leiðandi annað málsnið „rangt”. Málið er hins vegar miklu flóknara en það og kannski efni í aðra og lengri grein.

Auðvitað hefur Ríkisútvarpið og fréttamenn þess mikil áhrif á skoðanir hlustenda sinna, sem og málvitund. Ég hygg þó að samfélagsmiðlar séu miklu áhrifameiri hvað íslenskuna varðar, fyrir nú utan skoðanamyndandi áhrif í deilumálum samtímans. Það er bara svo auðvelt að hnýta í Ríkisútvarpið og hefur alltaf verið.

Höfundur er sagnfræðingur.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×