Þrír karlmenn og ein kona hafa sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni þar sem segir að málið hafi komið upp í lok apríl. Lögreglan heldur spilunum þétt að sér í málinu en greinir frá því að sá sem varð fyrir árásinni sé af erlendum uppruna, hafi verið hér á landi í langan tíma en allir grunaðir í málinu eru Íslendingar.
Samkvæmt heimildum fréttastofu komst lögregla á snoðir um málið eftir að brotaþoli hafði ekki mætt til vinnu í tvo daga og vinnuveitandi hans hafði í kjölfarið samband við lögreglu.
Lögreglan á Suðurlandi hefur notið aðstoðar lögreglunnar á höfuðborgasvæðinu, embættis Ríkislögreglustjóra og embættis Héraðssaksóknara við rannsókn málsins sem er í fullum gangi. Yfirlögregluþjónn á Suðurlandi sagðist ekki geta veitt neinar frekari upplýsingar um málið þegar fréttastofa leitaði svara í dag.
Í svari við fyrirspurn fréttastofu segir Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri Bláskógarbyggðar, að samfélagið sé í áfalli. Hún vonist til að rannsókn lögreglu gangi hratt og vel fyrir sig.
Tengist fjölskylduböndum
Ríkisútvarpið greinir sömuleiðis frá því að að hin grunuðu tengist fjölskylduböndum. Tvö þeirra séu á þrítugsaldri, sá elsti á sjötugsaldri en sá yngsti ekki orðinn tvítugur.
Brotaþoli hafi leigt bílskúrsíbúð af einum gerandanum sem átti húsið þar sem brotið var á honum. Gerendur hafi haldið honum í kjallara hússins, haft af honum pening og gengið ítrekað í skrokk á honum.
Eftir nokkurra daga frelsissviptingu hafi þau keyrt með manninn upp á Keflavíkurflugvöll og sent hann úr landi, mjög illa farinn, eins og það er orðað í frétt RÚV. Ekki liggi fyrir hvert hann hafi verið sendur.