Arnór, sem spilar nú með Blackburn Rovers í ensku b-deildinni, mætti á leik Norrköping og Hammarby í sænsku úrvalsdeildinni. Tímabilið er búið hjá Blackburn en Arnór missti líka af endanum á því eftir að hafa meiðst í leik með íslenska landsliðinu.
Arnór lék með Norrköping frá 2017 til 2018 en var síðan seldur til rússneska félagsins CSKA Moskvu. Norrköping fékk í kringum fjörutíu milljónir sænskra króna fyrir Arnór, 514 milljónir íslenskra króna, sem var metfé í sögu félagsins.
Hann spilaði því ekki lengi hjá félaginu en félagið naut heldur betur góðs af komu hans.
Stuðningsmenn sænska félagsins voru heldur ekki búnir að gleyma okkar manni sem sást vel þegar þeir sáu hann mæta til leiks á Östgötaporten í gær.
Stuðningsfólkið klappaði þar vel fyrir íslenska landsliðsmanninum og söng nafnið hans eins og sjá má hér fyrir neðan. Alvöru móttökur og skemmtilegt fyrir Arnór eftir mótlæti síðustu mánaða. IFK Norrköping sýndi frá þessu á miðlum sínum og skrifaði við: Alltaf velkominn heim.