Ég held að það sé farið að skýrast nokkuð vel hverjir hafa möguleika á að ná kjöri í forsetakoningunum þann 1. júní. Ljóst er að Katrín Jakobsdóttir nýtur enn mikils fylgis gamalla aðdáenda frá fyrri tíð og svo nýtur hún einnig sí aukins stuðnings gamalla andstæðinga á hægri væng stjórnmálanna, þeirra sem stutt hafa ríkisstjórnir hennar gegnum súrt og sætt. Töluverðar líkur verða að teljast á því að Katrín nái veli yfir 30% fylgi þegar þessir tveir hópar sameinast um að kjósa hana og að auki má reikna með að töluvert fylgi óákveðinna safnist á hana einfaldlega vegna þess hversu vel þekkt hún er. Jafnvel 40% fylgi er ekki óhugsandi ef öflunum sem standa á bak við hana, sem eru sterk, tekst áætlun sín.
Það er því nokkuð ljóst að dreifing atkvæða á þau þrjú hæstu má ekki verða of jöfn ef einhver annar en Katrín á að hafa möguleika á að vinna þessar kosningar. Horfast verður í augu við þá staðreynd að flest þeirra hafa enga möguleika á að vinna gegn Katrínu sem er í rauninni ekkert skrýtið þar sem Katrín er líklega þekktasta manneskjan í landinu og er óneitanlega mjög frambærilegur kandídat. Ég held að það sé þannig, eins og staðan er nú, að aðeins Halla Hrund og Baldur geti haft einhvern möguleika á að sigra Katrínu en ég efast þó stórlega um að Baldur hafi í raun möguleika til þess. Fólki á vinstri væng stjórnmála líkar ekki við daður hans við NATO og hervæðingu og finnst hann vera of langt til hægri yfirleitt í sínum viðhorfum öðrum en hvað varðar jafnréttismál. Á hægri vængnum er Baldur ekki heldur í einhverju uppáhaldi, enganvegin hjá hörðustu nýfrjálshyggju postulunum og svo er sú sorglega staðreynd að enn eru í þessum hópi fordómar gagnvart samkynhneigðum sem getur haft áhrif á hvernig fólk kýs.
Halla Hrund Logadóttir er að mínu mati eini kandídatinn sem hefur möguleika á að sigra Katrínu Jakobsdóttur í þessum kosningum. Halla Hrund er nánast ímynd náttúrunnar sjálfrar í allri sinni framkomu, glaðleg, hlý og falleg en líka ákveðin og augljóslega með bein í nefinu. Hún hefur breitt fylgi bæði í borg og til sveita, höfðar mjög til okkar margra þegar hún talar um samvinnu og að sameina fólk í verkefni sem gagnast heildinni þar sem réttlæti er leiðarljósið. Hún hefur sem orkumálastjóri bent á nauðsynlegar lagabreytingar til verndar náttúrunni og til þess að vernda heimili og minni fyrirtæki gagnvart markaðsvæðingu á orkumarkaði. Ég held að það sé ljóst engin annar framjóðandi í þessum kosningum hafi jafn mikla möguleika á að sigra. Halla Hrund Logadóttir verður líklega næsti forseti Íslands.
Höfundur er jarðskjálftafræðingur á eftirlaunum sem hefur starfað við Uppsala háskóla í 40 ár.