Starfsmaður Rauða krossins sagði alltaf álag á þessum árstíma vegna tiltektar og að umgengni hefði farið hríðversnandi undanfarið.
Gunnar Dofri Ólafsson samskipta- og þróunarstjóri Sorpu segir Sorpu taka við verkefninu af nokkrum ástæðum en stærsta séu hringrásarlögin sem segi að það eigi að safna textíl á öllum grenndarstöðvum. Það sé aðeins gert á um 30 af 90 núna og Rauði krossinn hafi ekki séð fram á að hafa bolmagn í að stækka verkefnið með þeim hætti.
„Við tókum samtalið fyrir um ári síðan og niðurstaðan var að við myndum taka við verkefninu. Gámarnir eru á færibandinu og verður dreift í byrjun júní. Þá verða fatagámar á öllum grenndarstöðvum og við erum að ræða við hirðuaðila hvernig henni verður háttað,“ segir Gunnar Dofri og það sé algert lykilatriði fyrir Sorpu að það verði vel gert.
Selja kílóið á 30 til 40 krónur
Rauði krossinn mun áfram hafa aðgang af textíl hjá Sorpu. Söfnunarkostnaðurinn er einhver að sögn Gunnars Dofra og mun Sorpa selja textílinn í heildsölu sem þau safna á um 30 til 40 krónur líklega kílóið.
„Svo sjáum við um rest. Það selst ekki nema um þrjú til fimm prósent innanlands.“
Hann segir Sorpu nú að skoða ýmsa anga þessa verkefnis. Sem dæmi skoði þau hvort þau geti grófflokkað og selt í heildsölu í Góða hirðinum til fataverslana eða til dæmis Listaháskólans. Einnig skoði þau hvort það sé hægt að selja heila gáma blindandi.
„En við munum vera erfið með rekjanleika. Því við viljum ekki selja fólki gám, það selur helminginn og setur hitt svo út í skurð. Við munum vilja sjá hvað fólk gerir við textílinn,“ segir Gunnar Dofri.