Skoðun

Mann­réttinda­stofnun verður að veru­leika

Jódís Skúladóttir skrifar

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp um Mannréttindastofnun Íslands. Meginhlutverk stofnunarinnar er að efla og vernda mannréttindi á Íslandi, eins og þau eru skilgreind í stjórnarskrá, lögum, alþjóðasamningum og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum.

En af hverju þarf Ísland sem stendur svo framarlega í mannréttindum að hafa slíka stofnun? Íslenska ríkið hefur ítrekað fengið athugasemdir og tilmæli frá alþjóðlegum eftirlitsaðilum um að koma á fót sjálfstæðri innlendri mannréttindastofnun sem uppfylli að fullu viðmiðunarreglur Sameinuðu þjóðanna um mannréttindastofnanir eða svokölluð Parísarviðmið (e. Paris Principles).

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem fullgiltur var fyrir Íslands hönd árið 2016, er fyrsti alþjóðlegi mannréttindasamningurinn sem kveður beinlínis á um að til staðar þurfi að vera slík stofnun sem hafi eftirlit með samningnum. Honum er ætlað er að verja og efla réttindi og virðingu fatlaðs fólks og aðildarríki viðurkenna að fatlað fólk hefur ekki hlotið tækifæri og réttindi til jafns við aðra og skuldbinda sig til að vinna að þeim. Með stofnun mannréttindastofnunar á Íslandi leggjum við ýmis mannréttindi til grundvallar svo sem bann við mismunun, rétt til lífs, bann við þrældómi og nauðungarvinnu, rétts til frelsis og mannhelgi, rétts til réttlátrar málsmeðferðar, friðhelgi einkalífs og eignaréttar, trúfrelsi, tjáningarfrelsi, rétt til menntunar, ferðafrelsi, rétts til heilsuverndar og til félagslegrar aðstoðar. Þessi réttindi verndum við í stjórnarskrá lýðveldisins. Mannréttindi snerta allt okkar daglega líf og um þau verðum við því að standa vörð í hvívetna.

Blikur hafa verið á lofti, bæði austan hafs og vestan hvað varðar mannréttindi. Við sjáum grundvallar réttindi kvenna um yfirráð yfir eigin líkama fótum troðin í Bandaríkjunum og mikið bakslag hefur verið víða um heim í mannréttindabaráttu hinseginfólks.

Hlutverk Mannréttindastofnunnar er til dæmis eftirlit með framkvæmd laga og ekki síst að vinna að því að opinberir aðilar og einkaaðilar virði mannréttindi á öllum sviðum samfélagsins.

Með frumvarpinu er því stigið mikilvægt skref, ekki einungis til að uppfylla skyldur okkar heldur til að sýna á alþjóðavettvangi að Ísland er, var og verður samfélag sem ekki gefur afslátt af sjálfsögðum mannréttindum. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er ákvörðun tekin um að koma á fót Mannréttindastofnun og unnið að því að klára málið á yfirstandandi vorþingi.

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×