Innlent

Ör­lítil aukning í skjálfta­virkni undir Svarts­engi

Jón Ísak Ragnarsson og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Kvika heldur áfram að safnast í hólfið undir Svartsengi
Kvika heldur áfram að safnast í hólfið undir Svartsengi Ívar Fannar

Greina má örlitla aukningu í skjálftavirkni í kvikuhólfinu undir Svartsengi síðasta sólarhringinn. Kvika heldur áfram að flæða í hólfið og allar líkur eru taldar á því að aftur gjósi í Sundhnúksgígaröðinni, en erfitt er að segja til um það hvenær.

Staðan er með svipuðu móti og hefur verið segir Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni. Um 90 skjálftar hafi verið í kvikuganginum síðasta sólarhringinn, en þeir hafi verið svona 50-80 síðustu viku. Það komi bara í ljós hvort virknin detti niður á morgun, annars sé staðan bara sú sama og verið hefur. Landris haldi áfram og þar af leiðandi sé aukin spenna sem þurfi að losa í skjálfta. Þau bíði bara eftir næsta kvikuhlaupi.

Hún telur langlíklegast að það komi verði annað eldgos, og líklegast sé að það verði á sama stað og síðast, við Sundhnúksgígaröðina. Fyrirvari gossins gæti orðið mjög stuttur, þar sem búið sé að brjóta bergið þar og svæðið „heitt og mjúkt“ og auðvelt sé fyrir kviku að smjúka upp. Gjósi sunnar býst hún við meiri skjálftavirkni og meiri fyrirvara.

Meiri kvika hafi nú safnast í hólfið undir Svartsengi en áður. Jóhanna segir að ef við lærðum eitthvað af Kröflueldum var það að meiri spennu þyrfti svo að til goss kæmi í hverjum atburði fyrir sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×