Erlent

Fengu ekkert merki frá þyrlunni sem hrapaði með for­setann um borð

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Björgunarsveitarmeðlimir bera lík eins fórnarlambsslyssins á börum.
Björgunarsveitarmeðlimir bera lík eins fórnarlambsslyssins á börum. AP/Azin Haghighi

Þyrlan sem hrapaði í gær með Ebrahim Raisi, forseta Írans, og Hossein Amir-Abdollahian utanríkisráðherra, var annað hvort ekki með merkissvara um borð eða að slökkt hafi verið á honum þegar slysið varð.

Abdulkadir Uraloğlu, samgöngumálaráðherra Tyrklands, segir að þegar ljóst var að slys hafi orðið hafi tyrknesk yfirvöld leitað að merki frá merkissvara þyrlunnar sem sendir út lofthæð og staðsetningu þyrlunnar. „En því miður, er líklegast að slökkt hafi verið á merkissvaranum eða að þyrlan hafi ekki verið með slíkan búnað um borð,“ segir Uraloğlu.

Guardian greinir einnig frá því að íranska ríkisstjórnin hafi verið hvött til þess að ganga frá kaupum á tveimur rússneskum þyrlum ætluðum innanlandsflutninga ráðherra og embættismanna vegna áhyggna af aldri þyrluflota ríkisstjórnarinnar.

Þyrlan sem hrapaði var af gerðinni Bell 212, tveggja hreyfla vél sem getur borið 15 manns. Forsetinn var á leið til borgarinnar Tabriz í norðvesturhluta landsins þegar slysið varð, eftir að hafa sótt viðburð í tengslum við opnun nýrrar stíflu nærri asersku landamærunum.

Rannsóknarteymi á vegum íranskra stjórnvalda er þegar komið á vettvang og skoðar aðstæður. Hinar tvær þyrlurnar í hópnum komust óhultar á áfangastað og enn sem komið er hafa engar ásakanir um spellvirki verið lagðar fram. Þyrlan lenti í vandræðum í mikilli þoku og þokunni létti ekki og því gekk leitarstarf brösulega. Samkvæmt írönskum ríkismiðlum skall þyrlan utan í fjall og fuðraði hreinlega upp.

Ayatollann Ali Khomenei hefur lýst yfir fimm daga þjóðarsorg og verður forsetinn borinn til hinstu hvílu á miðvikudaginn næstkomandi. Kosningar til nýs forseta verða haldnar í lok júní. Í millitíðinni mun Mohammad Mokhber varaforseti gegna skyldum embættisins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×