Á síðu Michelin guide hlýtur Oto glimrandi umsögn.
„Skemmtilegur, lifandi og ferskur staður sem býður upp á eitthvað nýtt og spennandi í reykvískri matarmenningu. OTO er einn heitasti staðurinn í bænum þökk sé líflegri stemningu og blöndu af ítalskri og japanskri matarhefð,“ segir á vef Michelin.
Matargerðin er sögð snjöll og virka vel.
Sigurður Laufdal eigandi veitingastaðarins OTO segir það algjöran draum fyrir veitingastað að hljóta slíka viðurkenningu, sér í lagi í ljósi þess hve stutt hann hefur verið opinn. Spurður hvort viðurkenningin hafi komið á óvart segir Sigurður:
„Já og nei, allir sem einn hafa lagt mikið á sig til að gera OTO af þeim veitingastað sem hann er í dag þannig það kemur kannski ekki á óvart en er vissulega mikið gleðiefni fyrir okkur.“
Athygli vakti þegar sjónvarpskokkurinn Gordon Ramsay var óvæntur gestur á OTO. Sigurður vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar hann sá nafn kokksins á lista yfir bókanir.
Auk OTO mælir Michelin sérstaklega með veitingastöðunum Brút, Tides Sumax og Mat og Drykk. Þá eru staðirnir Óx, Dill og Moss allir áfram með Michelin stjörnu. Sigurður segir viðurkenninguna hafa mikla þýðingu.
„Þetta er góð hvatning sem gefur okkur staðfestingu á því að við séum að róa í rétta átt og mögulega fáum við fleiri matarunnendur að utan sem eru að ferðast um landið okkar á OTO.“