Innlent

„Okkar hlut­verk að halda utan um hvert annað“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík.
Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík. Vísir/Vilhelm

Bæjarstjórinn í Bolungarvík segir samfélagið í áfalli vegna andláts sambýlisfólks á sjötugsaldri í gærkvöldi.

Lögreglan á Vestfjörðum segir ekkert benda til þess að nokkuð saknæmt hafi átt sér stað eftir að sambýlisfólk á sjötugsaldri fannst látið í heimahúsi í Bolungarvík í gær. Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að óskað hafi verið eftir aðstoð tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu auk réttarmeinafræðings til að taka þátt í vettvangsrannsókn lögreglu, sem hafi lokið í nótt.

Í kjölfarið muni fara fram réttarmeinarfræðileg rannsókn á líkunum. Að öðru leyti hefur lögregla ekki getað tjáð sig um málið þegar fréttastofa hefur leitað frekari upplýsinga.

Segir enga hættu á ferðum

Bæjarstjórinn í Bolungarvík segir fólki verulega brugðið.

„Þetta er ekki staða sem við þekkjum í okkar friðsæla samfélagi. Persónulegur harmleikur sem hefur átt sér stað og ég vil ítreka það við alla að málið sé ekki þess eðlis að það sé hætta á ferðum,“ segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri.

Samfélagið verði nú að standa saman.

„Hlúa að þeim sem eiga um sárt að binda og styðja hvert annað þegar svona kemur upp. Það eru vissulega eðlilegar tilfinningar og það koma upp alls konar tilfinningar hjá fólki, hvort sem það tengist þessu máli eða ekki.“

Í Bolungarvík búi lítið en samheldið samfélag. Eðlilegt sé að alls konar tilfinningar vakni upp við mál eins og þetta.

„Það er, eins og ég segi, okkar hlutverk að halda utan um hvert annað.“


Tengdar fréttir

Tvö látin en ekkert bendi til saknæms atburðar

Lögreglan á Vestfjörðum segir ekkert benda til þess að saknæmur atburður hafi átt sér stað í Bolungarvík í gær. Lögreglan hefur til rannsóknar andlát tveggja einstaklinga í heimahúsi í bænum en um er að ræða sambýlisfólk á sjötugsaldri.

Lögregla rannsakar andlát í Bolungarvík

Lögreglan á Vestfjörðum kallaði í kvöld eftir aðstoð tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur lögregla til rannsóknar andlát í Bolungarvík. Lögreglustjóri vill lítið sem ekkert tjá sig um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×