Skoðun

„Nema í al­veg sér­stökum til­vikum“

Sigurður Örn Hilmarsson skrifar

Hugmyndir fólks um hlutverk og æskilegt umfang ríkisvaldsins eru af eðlilegum ástæðum ólíkar. Flestir eru þó sammála um að frumhlutverk þess sé að halda uppi lögum og reglu. Samt sitja þessi grundvallarmálefni á hakanum við forgangsröðun verkefna ríkisins.

Einn mælikvarði þess hvort við búum í siðuðu samfélagi er hvernig farið er með fanga og sakborninga, en um árabil hefur ríkt andvaraleysi þegar kemur að fjármögnun fangelsismála á Íslandi. Öllum ætti að vera augljóst að réttarvörslukerfinu er m.a. ætlað að tryggja að þeir sem gerast brotlegir við lög þurfi að svara til saka og afplána refsingu ef sök sannast. Samt er það svo að á árunum 2012-2022 fyrndust 275 fangelsisdómar, m.a. vegna skorts á afplánunarrýmum. Þar af voru fjórir dómar fyrir kynferðisbrot, meðal annars gegn börnum yngri en 15 ára.

Það hefur legið fyrir lengi að lyfta þurfi grettistaki í fangelsismálum á Ísland, stytta boðunarlista og bæta aðbúnað fanga. Lausn ríkisvaldsins fólst hins vegar ekki í því að styrkja Fangelsismálastofnun myndarlega eða fjölga afplánunarrýmum heldur að breyta efnislega réttaráhrifum fangelsisdóma afturvirkt. Einhver kynni að telja að það sé ekki hægt eða gangi gegn þrískiptingu ríkisvaldsins, en sá hinn sami getur skoðað lög nr. 98/2021 þar sem löggjafinn tók sig til og breytti skilyrðum samfélagsþjónustu þannig að hún væri heimil vegna allt að tveggja ára fangelsisdóma í stað 12 mánaða eins og áður var. Á mannamáli þýðir það að einstaklingur sem dæmdur var til allt að tveggja ára fangelsisrefsingar að undangengnu mati dómara á sönnunargögnum og framburði sakbornings, brotaþola og vitna, mun ekki afplána dóm sinn í fangelsi vegna afturvirkrar lagasetningar Alþingis.

Staðan hjá lögreglunni er litlu skárri. Nú í vor birtust fréttir um að lögreglumönnum á Íslandi hafi fækkað jafnt og þétt á undanförnum árum og áratugum. Það þrátt fyrir aukinn fjölda þyngri verkefna, flóknari samfélagsgerð og umtalsverða fjölgun ferðamanna. Samkvæmt kynningu lögreglunnar á fundi borgarstjórnar 11. apríl 2024 voru 339 lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu árið 2007 en árið 2023 hafði þeim fækkað í 297. Í ræðu sinni á Alþingi 30. apríl sl. sagði Stefán Vagn Stefánsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, að fjöldi lögreglumanna í landinu væri svipaður og fyrir 35 árum þrátt fyrir að íbúum landsins hefði fjölgað um 60% á sama tíma.

Erfiðara er að nálgast tölulegar upplýsingar um stöðu ákæruvaldsins, en undirritaður hefur ásamt fleiri lögmönnum haft áhyggjur af málsmeðferðartíma þar. Stjórnarskránni okkar er ætlað að tryggja réttinn til fljótvirkrar málsmeðferðar sem er hluti af réttlátri málsmeðferð. Það er málsaðilum, bæði sakborningi og brotaþola, í hag að meðferð máls ljúki á sem stystum tíma, enda þungbært að lifa við óvissu um framtíðina. Þannig getur dráttur máls verið refsing í sjálfu sér, stundum jafnvel þungbærari en sjálfur dómurinn.

Hér að ofan er fjallað um alvarleg vandamál er varða almanna- og réttaröryggi. Um málaflokkinn er fjallað í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2025-2029 sem nú er til umræðu á Alþingi. Þó framtíðarsýn ríkisvaldsins um að þegnar landsins upplifi öryggi byggt á öflugri löggæslu sé falleg, er henni ekki fylgt eftir, heldur lagt út frá almennri aðhaldskröfu um skerðingu á fjárframlögum sem nemur 1.537 m.kr.

Aðhaldskrafa ríkisvaldsins nær einnig til dómstólanna, en í fjármálaáætluninni er gert ráð fyrir „sértækum aðhaldsráðstöfunum“ á málefnasviði dómstóla sem nemi 40 mkr. á árinu 2026, 50mkr. á árinu 2027 og 60 mkr. á árinu 2028. Þetta kemur nokkuð á óvart þegar legið hefur fyrir um nokkurn tíma að dómskerfið er undirfjármagnað.

Að mati undirritaðs er sú hætta fyrir hendi að niðurskurður til dómstóla dragi úr afkastagetu þeirra og komi niður á málshraða, sem aftur bitnar á réttaröryggi og mannréttindum borgaranna. Þá er hætt við að boðaður niðurskurður á fjárframlagi til málaflokksins muni bitna á innleiðingu stafræns dómskerfis, sem án efa mundi leiða til aukinnar hagræðingar og vinnusparnaðar þegar til lengri tíma er litið.

Í desember síðastliðnum ritaði ég grein í Lögmannablaðið um sjálfstæði dómstólanna og benti á ráðleggingar Feneyjarnefndarinnar frá 2010 um mikilvægi þess að dómstólarnir fái nægilegt fjármagn til að sinna stjórnarskrárbundnu hlutverki sínu. Sjálfstæðir og öflugir dómstólar eru forsenda lýðræðislegs réttarríkis. Þó ekki sé gerð krafa um fullkomið fjárhagslegt sjálfstæði þeirra, ber fjárveitingarvaldinu að tryggja dómstólunum nægilega fjármuni svo þeir geti rækt hlutverk sitt. Samkvæmt 7. gr. núgildandi dómstólalaga er það hlutverk stjórnar dómstólasýslunnar að leggja mat á og gera tillögur til ráðherra um nauðsynlegar fjárveitingar. Þótt ráðherra sé samkvæmt ákvæðinu ekki skylt að taka tillögur dómstólasýslunnar upp óbreyttar er lagt til grundvallar að hann víki ekki frá þeim „nema í alveg sérstökum tilvikum“, svo vitnað sé til athugasemda í frumvarpinu. Með þessu fyrirkomulagi var leitast við að styrkja stöðu dómstólanna gagnvart framkvæmdavaldinu og tryggja að Alþingi séu fyllilega ljós sjónarmið dómsvaldsins áður en ákvörðun er tekin um fjárveitingar.

Af fjármálaáætluninni má hins vegar ráða að ekki hafi verið litið til tillagna dómstólasýslunnar um að auka þurfi framlög á málefnasviðinu, m.a. sökum þess að framlög til héraðsdómstólanna vegna ársins 2024 eru um 90 mkr. undir grunnrekstrarþörfum þeirra. Stendur það upp á fjárveitingarvaldið að endurskoða áætlunina eða þá að rökstyðja hvers vegna um sé að ræða „alveg sérstakt tilvik“ sem réttlæti niðurskurðinn líkt og dómstólalögin áskilja.

Meginmarkmiðið er ekki að reka ódýrt réttarvörslukerfi, heldur réttlátt, skilvirkt og faglegt kerfi þar sem réttindi allra hlutaðeigandi fá notið sín. Það kostar einfaldlega peninga, en er vissulega þess virði. Annars er hættan sú réttindi borgaranna fari forgörðum.

Sigurður Örn Hilmarsson

formaður Lögmannafélags Íslands




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×