Fótbolti

Elías Már skoraði tví­vegis og sæti í efstu deild blasir við

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elías Már minnti á sig í dag.
Elías Már minnti á sig í dag. vísir/Getty Images

Elías Már Ómarsson kom inn af bekknum og skoraði tvívegis þegar NAC Breda lagði Excelsior 6-2 í umspili um sæti í hollensku úrvalsdeildinni í fótbolta á næstu leiktíð. Um var að ræða fyrri leik liðanna.

Hinn 29 ára gamli Elías Már hóf leikinn á varamannabekknum en kom inn á þegar 68 mínútur voru komnar á klukkuna. Staðan þá var 3-2 en gestirnir í Excelsior voru manni færri eftir að hafa misst mann af velli í fyrri hálfleik.

Aðeins fimm mínútum eftir að Elías Már kom inn af bekknum misstu gestirnir annan mann af velli, að þessu sinni með tvö gul spjöld. Það nýttu heimamenn sér en Martin Koscelník skoraði fjórða mark NAC Breda áður en komið var að Keflvíkingnum.

Elías Már þekkir gríðarlega vel til hjá Excelsior eftir að spila með liðinu frá 2018 til 2021. Hann lék sína fyrrum félaga hins vegar grátt í kvöld.

Fyrra mark hans kom á 79. mínútu og það síðara þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Lokatölur 6-2 og NAC Breda því með fjörurra marka forystu fyrir síðari leik liðanna sem fram fer þann 2. júní næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×