Sport

NFL-leikmaður sakaður um kyn­ferðis­of­beldi í flugi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brandon McManus segir ásakanir þessar vera tilbúning og tilraun til fjárkúgunar.
Brandon McManus segir ásakanir þessar vera tilbúning og tilraun til fjárkúgunar. Getty/ James Gilbert

NFL sparkarinn Brandon McManus hefur verið kærður fyrir kynferðisofbeldi af tveimur konum.

Konurnar segja að McManus hafi áreitt þær báðar í flugi til London á síðasta ári. Þær voru flugfreyjur í fluginu. McManus hefur neitað ásökunum.

Ástæðan fyrir því að þessi leikmaður Jacksonville Jaguars var í þessu flugi var að liðið var þarna í keppnisferð og að fara að spila leik í London.

ESPN komst yfir upplýsingar um innihald kærunnar. Þar kemur fram að McManus hafi meðal annars nuddað sér utan í þær og reynt að kyssa aðra þeirra þegar hún sat í ókyrrð.

Konurnar sækjast eftir því að fá meira en eina milljón Bandaríkjadala hvor og að málið fari fyrir kviðdóm.

Umboðsmaður McManus, Brett Gallaway að nafni, segir ásakanirnar vera tilbúning og augljóslega falskar. Hann segir að þetta sé í raun tilraun til fjárkúgunar.

Konurnar saka einnig félagið sjálft um vítaverða vanrækslu með því að hafa ekki hemil á leikmanni sínum og sjá til þess að þær gætu unnið í öruggu umhverfi.

McManus er ekki lengur leikmaður Jacksonville Jaguars því 14. mars síðastliðinn skrifaði hann undir samning við Washington Commanders sem færir honum 3,6 milljónir dollara í laun.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×