Skoðun

Katrínu sem for­seta

Eiríkur Finnur Greipsson skrifar

Embætti forseta Íslands er eftirsótt embætti ef marka má þann fjölda einstaklinga sem hafa áhuga á að sinna því. Ég er einn þeirra fjölmörgu sem gera þurfa upp hug sinn og velja á milli hæfra einstaklinga. Það sem ég legg til grundvallar mati mínu á frambjóðendum er ekki flókið, lífshlaup og reynsla er eitt, framkoma og orðspor er annað.

Katrín Jakobsdóttir er mannasættir og leiðtogi. Einstaklingur með sterkar skoðanir sem kann þó að stilla eigin kröfur í takt við stöðu mála í flóknu samfélagi, þar sem virði samstöðu og samstarfs hefur hærra gildi en eigin metnaður og augnablikshagsmunir. Henni hefur farnast vel í umtalsverðum ólgusjó, á innlendum og erlendum vettvangi. Slíkt orðspor og framkoma er mikilvægur eiginleiki þess sem gegnir embætti forseta Íslands. Forsetinn er ekki handhafi framkvæmdavalds né löggjafarvalds en hefur einstaka stöðu til að efla samstöðu og samhug þjóðarinnar.

Við höfum horft til Katrínar með stolti sem einstaklings, sem þingmanns, sem ráðherra og ekki síst forsætisráðherra þegar áföll hafa dunið yfir samfélagið, stór sem smá byggðarlög, svo sem Flateyri, Seyðisfjörð og nú Grindavík. Hún hefur einnig látið málefni illa staddra einstaklinga til sín taka. Einstök var aðkoma stjórnvalda að COVID-19 ógninni þar sem hún sýndi mikla forystuhæfileika, yfirvegun, fórnfýsi og skynsemi. Henni er það tamt að sýna baráttuvilja, virðingu og auðmýkt fyrir mannréttindum og einstaklingsfrelsi – en allt eru þetta eiginleikar sem forseti Íslands getur auðgað og eflt innan okkar samfélags með sínum störfum.

Verk Katrínar Jakobsdóttur eru sýnileg, til sóma og gefa okkur mynd af því við hverju við megum búast. Mín fullvissa er að hún muni gegna embætti forseta Íslands af glæsileik og verða meðal þeirra þjóðhöfðingja sem munu setja mark sitt á jákvæða þróun hagsmunamála afkomenda okkar.

En til þess þarf hún þinn stuðning, þitt atkvæði.

Höfundur er tæknifræðingur. 




Skoðun

Sjá meira


×