Handbolti

Strákarnir hans Guð­mundar knúðu fram odda­leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson er einum sigri frá því að gera Fredericia að dönskum meisturum.
Guðmundur Guðmundsson er einum sigri frá því að gera Fredericia að dönskum meisturum. vísir/vilhelm

Fredercia, sem Guðmundur Guðmundsson þjálfar, vann Álaborg, 31-30, í öðrum leik liðanna um danska meistaratitilinn í kvöld. Liðin mætast í oddaleik á laugardaginn.

Reinier Taboada skoraði sigurmark Fredericia þegar ein og hálf mínúta var til leiksloka.

Álaborg var með frumkvæðið lengst af þótt munurinn á liðunum væri jafnan bara 1-2 mörk. Staðan í hálfleik var jöfn, 13-13.

Gestirnir náðu nokkrum sinnum þriggja marka forskoti, meðal annars 23-26 þegar ellefu mínútur voru eftir.

Á lokakaflanum voru heimamenn hins vegar sterkari, skoruðu átta mörk á síðustu tíu mínútunum og tryggðu sér sigurinn, 31-30.

Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði eitt mark fyrir Fredericia og var í tvígang vísað af leikvelli.

Það verður líka oddaleikur um bronsið eftir sigur Skjern á Ribe-Esbjerg, 25-32, í kvöld. Oddaleikurinn fer fram á laugardaginn eins og oddaleikurinn um titilinn.

Ágúst Elí Björgvinsson varði þrjú skot í marki Ribe-Esbjerg en Elvar Ásgeirsson lék ekki með liðinu í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×