Innlent

„Varnargarðarnir stóðu sig mjög vel“

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Ármann Höskuldsson eldfjallasérfræðingur var við eldstöðvarnar í kvöld. 
Ármann Höskuldsson eldfjallasérfræðingur var við eldstöðvarnar í kvöld.  Vísir/Vilhelm

Ármann Höskuldsson eldfjallasérfræðingur segir varnargarðana hafa haldið vel þegar hraun úr eldgosinu við Sundhnúk flæddi að í dag. Sýni af hrauninu séu á leið úr landi. 

Aðspurður segir hann gang eldgossins nokkuð svipaðan og sést hefur í fyrri eldgosum á svæðinu, þó það hafi verið aflmikið í byrjun. Sem betur fer hafi meginhluti gossins verið norðan við gosopið, en ekki nærri byggð. 

„Varnargarðarnir stóðu sig mjög vel. Geilin austan við Þorbjörn er orðin stútfull af hrauni og svo er hraunið næstum því komið út í sjó við Nesveg,“ segir Ármann í samtali við fréttastofu. 

Sýni tekið úr hrauninu.Vísir/Vilhelm

Vilhelm Gunnarsson ljósmyndari Vísis náði myndum af Ármanni þegar hann tók sýni úr hrauninu á Nesvegi í kvöld. En til hvers eru tekin sýni úr hrauni?

Ármann segir að sýnin verði send erlendis í ýmsar mælingar. „Við erum að reyna að læra svolítið um vökvann og með því að þekkja hann sem best getum við hannað varnargarðana betur og skoðað í mótviðrum hvernig garðarnir bregðast við því þegar hraunið rennur að þeim,“ útskýrir Ármann.

„Þetta er allt liður í að læra sem mest svo við bregðumst rétt við í hvert skipti sem eitthvað gerist,“ segir hann jafnframt. 

Ármann hætti sér nálægt hrauninu. Vísir/Vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×